Það er von á sann­kölluðu sumar­veðri norðan- og austan­lands fyrri part vikunnar og gæti hitinn farið yfir 20 gráður þar.

Í dag og á morgun verður nokkuð á­kveðin suð­læg átt, skýjað og rigning af og til á sunnan- og vestan­verðu landinu en á morgun og á mið­viku­dag mun bæta tölu­vert í úr­komuna.

Sem fyrr segir verður annað uppi á teningnum fyrir norðan og austan þar sem vindur verður mun hægari og lengst af þurrt og bjart veður.

„Tals­verð hlýindi fylgja þessum suð­lægu vindum og gæti 20 stiga múrinn rofnað á Norð­austur- og Austur­landi og þá einna helst in til landsins. Síðan er út­lit fyrir mun að­gerðar­minna veður í fram­haldinu,“ segir í at­huga­semd veður­fræðings á vef Veður­stofu Ís­lands.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á þriðju­dag:
Suð­austan 8-15 m/s og rigning, hvassast við ströndina, en bjart­viðri norð­austan­lands. Hlýtt í veðri, allt að 20 stigum fyrir norðan. Hægari suð­ves­tátt og úr­komu­minna vestan­til undir kvöld og fer að kólna.

Á mið­viku­dag:
Suð­læg átt, 5-13 m/s og rigning, en þurrt að kalla á Norð­austur­landi. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast norð­austan­lands.

Á fimmtu­dag:
Breyti­legar áttir og dá­lítil rigning á austan­verðu landinu, en annars úr­komu­lítið. Hiti 8 til 14 stig.

Á föstu­dag:
Norð­aust­læg átt og skýjað með köflum, en smá væta suð­austan­lands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Suður­landi.

Á laugar­dag:
Suð­vestan­átt, all­hvöss norð­vestan­til, en annars hægari. Þurrt um mest allt land og fremur hlýtt í veðri.

Á sunnu­dag:
Á­fram­haldandi fremur hlý suð­vestan­átt og víða þurrt, síst á Vest­fjörðum.