Í dag er spáð suðvestan 3 til 8 metrum á sekúndu. Skýjað og dálítil væta öðru hvoru, en yfirleitt þurrt austanlands.

„Þar verður jafnan hlýjast eða 16 til 17 stig þegar best lætur, hámarkshiti dagsins er líklegur til að mælast á Héraði eða inni á einhverjum Austfjarðanna,“ segir í hugleiðingumveðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Búast má við keimlíku veðri á morgun, þó örlítið hvassara og rigning með köflum.

Þá verður þurrt austanlands fram á kvöld og hiti gæti aftur náð 16 til 17 stigum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Vestan og norðvestan 3-8 m/s og léttir víða til, en 8-13 og lítilsháttar væta á Norður- og Norðausturlandi fyrir hádegi. Hiti frá 6 stigum við norðurströndina, upp í 15 stig á Suðausturlandi.

Á sunnudag (hvítasunnudagur):

Suðvestlæg átt 5-13 m/s með rigningu, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðaustantil.

Á mánudag (annar í hvítasunnu):

Suðaustlæg átt sunnan heiða, væta með köflum og hiti 8 til 13 stig. Norðaustlæg átt fyrir norðan, úrkomulítið og hiti 2 til 7 stig.

Á þriðjudag:

Stíf austanátt og skýjað með köflum, en dálítil væta við suður- og austurströndina. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Vestur- og Norðurlandi.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt og rigningu víða, einkum suðaustantil. Hiti 8 til 15 stig.