Það verður kalt víða á landinu í dag og má gera ráð fyrir frosti á bilinu 2 til 12 stig. Kaldast verður í inn­sveitum fyrir norðan en hlýnar heldur syðra þegar líður á daginn að því er fram kemur á vef Veður­stofu Ís­lands.

Hægur vindur og bjart veður í dag, en austan- og suðaustan strekkingur með suðurströndinni. Mögulega dálítil él sunnan- og vestanlands.

Fremur hæg suðlæg átt á morgun, 3 til 8 metrar á sekúndu með suðurströndinni og skýjað með köflum og dálítil él suðaustanlands. Áfram frost, en við frostmark syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðlæg átt, 3-8 metrar á sekúndu en austan 8-15 metrar á sekúndu með suðurströndinni. Skýjað með köflum og dálítil él suðaustan til. Frost 2 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan, en frostlaust syðst.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Suðaustlæg átt, 3-10 metrar á sekúndu og skýjað að mestu, en dálítil slydda eða snjókoma með suður- og suðausturströndinni. Hiti 0 til 5 stig syðst á landinu, en frost annars 1 til 6 stig.

Á föstudag:
Suðaustlæg átt og lítilsháttar snjókoma eða él, en þurrt að mestu fyrir norðan og austan. Frost víða 1 til 6 stig, en áfram kringum frostmark syðst.

Á laugardag:
Norðaustlæg átt og dálítil él og frost víða um land, en bjartviðri vestanlands.