Stormurinn Filomena hefur þakið hluta Spánar í miklum og þungum snjó. Rauðar veðurviðvaranir eru í gildi í fjölda sveitarfélaga vegna stormsins.

Sögulegt magn af snjó hefur fallið síðustu daga, en jafn mikill snjór hefur ekki sést síðustu 40 til 50 árin.

Ástandið er einna verst í Madríd, höfuðborg Spánar, en þar er allt að 20 sentimetra snjór á götum borgarinnar. Flugvellinum í Madríd hefur verið lokað ásamt fjölda vega.

Allt að 20 sentimetra snjór hefur mælst í Madríd .Bílar hafa verið að lenda út vegum af eða festast.
Fréttablaðið/AFP

Í gærkvöldi festist fjöldi ökutækja á hraðbraut nálægt höfuðborginni vegna færðar. Slökkviliðsmenn og hermenn voru kallaðir til að aðstoða ökumenn sem höfðu fest sig.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er snjókoman í Madríd sú mesta sem hefur mælst í að minnsta kosti 40 ár. AEMET, veðurstofa landsins, segir að snjókoman sé óvenjuleg og líklegast söguleg á svæðinu.

Rauðar veðurviðvaranir eru nú í gildi í Madríd, Castilla-La Mancha, València , Katalóníu og Aragón.

Afar kalt er á þessum svæðum en í vikunni er spáð allt að 12 stiga frosti í Madríd.