Sjór hefur flætt yfir bakka sína við Grindavíkurhöfn en myndband sem Örn Eyjólfsson birtir á Facebook sýnir þá mikla ölduhæð sem er við höfnina núna í kvöld og grínast Örn með að fiskurinn landi sér sjálfur. 

Veðrið hefur verið nokkuð fyrirferðarmikið í fréttum í dag og í kvöld en í morgun gaf Landhelgisgæslan út tilkynningu vegna mikillar ölduhæðar og þá sést í ölduspá Veðurstofunnar að ölduhæðin er gífurleg, líkt og staðfest er á myndbandinu hér fyrir neðan. Þá hefur öflugasta eldingaveður síðan 1992 gengið yfir landið í kvöld.

Veðurstofan hefur sagt að veðrabrigðin næstu daga verði ansi snörp og því hefur fólk verið beðið um að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana, sérstaklega ef fólk ætlar sér að ferðast.