Talið er að allt að 70 manns séu látin eftir að ferju hvolfdi á Tígrisánni í Mósúl í Írak. Um 200 manns voru um borð í ferjunni sem var á leið með fólkið í skemmtigarð, en í dag fagnar fólk nýju ári, eða Nowruz.

Í frétt Al Jaseera um málið segir að innanríkisráðuneyti Írak hafi gefið út að þau telji að ferjunni hafi hvolft því of margir hafi verið um borð. 

Forsætisráðherra landsins, Adel Abdul Mahdi, hefur fyrirskipað að rannsaka eigi hvað hafi orðið til þess að ferjunni hvolfdi. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfar slyssins segir að hann fylgist með atburðum með bæði sorg og sárt hjarta.

Björgunarteymi eru nú við störf á ánni til að reyna að bjarga þeim sem lifandi eru og til að ná þeim látnu upp úr ánni. Alls hefur tekist að bjarga 12 samkvæmt frétt BBC.