Neytendasamtökin hyggjast láta gera allsherjarúttekt á tryggingamálum hér á landi.

Í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag kom fram að ábyrgðar- og kaskótrygging er um það bil fimm sinnum dýrari hér á landi en í Svíþjóð og Bretlandi. Iðgjöld fyrir Renault Captur-bifreið hér á landi nema ríflega 177 þúsund krónum á ári en á bilinu 33-38 þúsundum í Bretlandi og Svíþjóð.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslensks bifreiðaeigenda, segir iðgjöld bifreiðatrygginga hér á landi óeðlilega há vegna fákeppni. Hann átelur Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands fyrir að bregðast eftirlitsskyldu sinni með starfsemi og verðskrá tryggingafélaganna.

Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri Trygginga hjá TM, segir það koma sér á óvart að svo mikill munur sé á iðgjöldum milli Íslands og Svíþjóðar og Bretlands. Hann segir bótakerfi vegna líkamstjóns í Svíþjóð vera mjög frábrugðið því sem er hér á landi og einnig sé bótakerfið gerólíkt í Bretlandi.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir samtökin hyggjast láta gera allsherjarúttekt á tryggingamálum þar sem meðal annars verði borið saman lagaumhverfi hér á landi og annars staðar og kannað hvort þessi mikli verðmunur stafi af því að íslensk lög setji þyngri byrðar á tryggingafélög vegna bóta en gert er í öðrum löndum.

Aðspurður segir Breki svona úttekt vera umfangsmikið verkefni. Kostnaður nemi á bilinu 12 til 15 milljónum króna en bundnar séu vonir við að sú fjármögnun fáist frá ríkinu og verkalýðsfélögum.