Skjólstæðingur Bjargarinnar – Geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja greindist í gær með COVID-19 smit. Alls sækja um 25 til 40 einstaklingar Björgina heim á degi hverjum, starfsmenn og skjólstæðingar, en þangað leitar fólk til þess að fá margs konar geðheilbrigðishjálp sem og nauðsynlegan félagsskap. Samkvæmt forstöðumanni Bjargarinnar, Díönu Hilmarsdóttur, hafa tíu einstaklingar verið skikkaðir til fara í sóttkví í tvær vikur í samræmi við leiðbeiningar frá smitrakningarteymi.

„Búið er að rekja ferðir og samneyti viðkomandi við einstaklinga og starfsmenn hér í Björginni. Björgin verður lokuð á morgun, föstudag, og sótthreinsuð. Við munum svo opna aftur mánudaginn 6. júlí,“ segir Díana. Að hennar sögn er verið að sinna viðkvæmum hópi af einstaklingum sem áttu margir hverjir mjög erfitt þegar Björgin var lokuð um nokkurra vikna skeið á meðan COVID-19 stóð sem hæst. Löng lokun mun því reynast mörgum þungbær og þá ekki síður sóttkví. „Í því ljósi er mjög mikilvægt að geta haft opið áfram. Ítrekað er fyrir fólki að gæta fyllstu varúðar, mikilvægi handþvottar og viðhalda 2 metra reglunni eftir fremsta megni, nota einnota hanska og vera dugleg að spritta sig og halda sig heima ef einhver einkenni eru til staðar,“ segir Díana.

Áður hafði verið greint frá því á Facebook-síðu Bjargarinnar að fjölskyldumeðlimur skjólstæðings hefði greinst með COVID-19 í byrjun vikunnar. Í kjölfarið leiddi rannsókn í ljós að skjólstæðingurinn var einnig smitaður og því þurfti að grípa til ofangreindra aðgerða.