Hættu­á­stand ríkir nú á landa­mærum Ís­lands vegna stöðugs straums flótta­fólks til landsins. Þau bú­setu­úr­ræði sem ríkið rekur eru að fyllast og er hættu­á­standið ein leið til þess að takast á við vanda­málið. Á síðustu sjö dögum hafa 88 manns sótt um hæli hér á landi, þar af eru 57 manns frá Úkraínu. Gylfi Þór Þor­­steins­­son, að­­gerðar­­stjóri yfir mót­töku Úkraínu­manna segir að staðan sé flókin og að mögu­lega þurfi að opna fjölda­hjálpa­stöð til þess að takast á við vanda­málið, þó hann vilji forðast það.

„Það er enn að aukast straumurinn til landsins, aðal­lega er það frá Úkraínu. Við erum í þeirri stöðu eins og fram hefur komið að hús­næði er af skornum skammti og öll okkar vinna fer í að reyna að finna hús­næði sem að getur tekið stóran hóp fólks, í kringum 50 manns,“ segir Gylfi Þór.

Ekki í samkeppni við hin almenna borgara

Gylfi segir að ekki sé verið að leita af lausum í­búðum og að ríkið sé ekki í sam­keppni við hinn al­menna borgara á leigu­markaðnum.

„Við erum að leita að hús­næði sem við erum að leigja til eins árs, jafn­vel lengur, þar sem við getum verið að hýsa í átta vikur og allt upp í eitt ár, fólki sem að hingað er komið og er á flótta. Þetta væru þá byggingar eins og við höfum verið að taka á leigu, gisti­heimili sem eru hætt í rekstri, hótel­byggingar ef þær eru á lausu og bara þær byggingar sem hýst geta 50 manns eða fleiri helst. Þetta er það sem við erum búinn að vera gera allt þetta ár,“ segir Gylfi, en hann segir það ekki skipta máli hvar slík hús­næði séu stað­sett á landinu, einungis að þau upp­fylli ákveðnar kröfur og að það séu sam­göngur til og frá staðnum.

„Staðan er sú að hún er mjög flókin, ein­fald­lega vegna þess að það er mjög lítið rými eftir í okkar úr­ræðum sem við höfum nú þegar og fólkið heldur á­fram að koma. Það er enginn sem vill opna fjölda­hjálpa­stöð, þar sem fólk þarf hugsan­lega að liggja á ein­hverjum beddum í í­þrótta­húsum eða ein­hverjum vöru­skemmum. Hins vegar gæti það auð­vitað komið upp ef ekki tekst að leysa þennan vanda. En það er eitt­hvað sem við viljum forðast,“ segir Gylfi.

Leysi ákveðin vanda ef flóttafólk fengi tækifæri til atvinnu

Gylfi segir að það verði ekki snúið baki við fólki sem sækir hér um hæli.

„Nei það er ekki hægt vegna al­þjóð­legra laga og samninga sem eru í gildi. Við getum ekki lokað landinu hvað þetta varðar. Fólk er komið til landsins þegar það sækir um hælið, þannig við erum ekki að fara loka flug­völlum, eins og gefur auga­leið, því það myndi bitna á öllum. Við erum ekki að fara snúa baki við fólk sem við erum með,“ segir Gylfi.

Flótta­fólk frá Úkraínu fær dvalar­leyfi hér á landi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða. Það felur í sér að fólkið fær dvalar­leyfi hér á landi í eitt ár, en ekki at­vinnu­leyfi. „Þau fá dvalar­leyfi til eins árs, það er mjög auð­velt fyrir þau að komast út á vinnu­markaðinn. Nú þegar eru 5 til 600 manns úr hópi hælis­leit­enda sem eru kominn með at­vinnu­leyfi á þessu ári. At­vinnu­rek­endur eru að leita að starfs­fólki og eru að kalla eftir inn­flutningi á vinnu­afli. Ef flótta­fólkinu yrði gefið tæki­færi til at­vinnu í ríkara mæli, þá myndi það líka leysa á­kveðin vanda, þegar fólk getur farið að standa á eigin fótum varðandi húsa­leigu og fram­vegis,“ segir Gylfi, sem bætir við að hann heyri aðal­lega já­kvæða hluti um þá flótta­menn sem fá vinnu hér á landi.

„Af því starfs­fólki sem að við heyrum af, hvort sem það hafi verið ráðið í ferða­þjónustu, á veitinga­staði eða inn í fyrir­tæki, mikið af þessu fólki er mjög vel menntað, þá er mikil á­nægja með þetta starfs­fólk, að öllu jafna,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að nú sé unnið að sam­komu­lagi við sveitar­fé­lögin um þeirra að­komu af mót­töku flótta­fólks. „Það liggur á borðinu samningur við sveitar­fé­lögin, þar sem ríkið tekur stóran þátt í kostnaði sveitar­fé­laganna við sam­ræmda mót­töku á flótta­fólki. Nú er beðið eftir því að sveitar­fé­lögin komi að borðinu og létti af þessum skamm­tíma­úr­ræðum sem við erum að bjóða upp á. Þannig er hægt að létta á hættu­á­standinu á landa­mærunum,“ segir Gylfi.