Alls liggja nú fimm­tán ein­staklingar inni á Land­spítalanum vegna al­var­legra veikinda tengt CO­VID-19. Það fjölgaði um fimm síðasta sólar­hringinn. Í þessari nýjustu bylgju faraldursins á Íslandi hafa alls 24 verið lagðir inn á spítalann vegna alvarlegra veikinda.

„Það voru fimm lagðir inn og tveir út­skrifaðir,“ segir Runólfur Páls­son, yfir­maður CO­VID-göngu­deildar Land­spítalans, í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Hann segir að lang­flestir sem eru inni­liggjandi séu með lungna­bólgu af völdum CO­VID-19.

„Þetta er mikill fjöldi smitaðrar og þó svo að hlut­fall þeirra sem veikjast illa, eða al­var­lega, sé lægra en áður þá er fjöldinn orðinn svo mikill að það eru fimm­tán inni­liggjandi og tveir á gjör­gæslu. Á­lagið á spítalanum er mjög mikið og staðan er orðin mjög þung, bæði vegna við­bótar­á­lags í tengslum við CO­VID-19 en líka vegna annarra bráðra veikinda. Þetta er þung staða,“ segir Runólfur.

Alls eru nú 1.232 í eftir­liti hjá CO­VID-göngu­deildinni og af þeim eru 188 börn, sem Barna­spítalinn hefur þó tekið að sér að fylgjast með og veita þjónustu.

Tveir rauðir og 28 gulir

„Það voru í morgun tveir með mikil ein­kenni og kóðaðir rauðir og 28 kóðaðir gulir, sem teljast meðal­veikindi. Þessir ein­staklingar eru allir í nánu eftir­liti og margir að koma til skoðunar til að meta hvort þörf sé á inn­lögn. Þannig hefur þetta verið síðustu daga. Það er unnið til mið­nættis vegna þessa alla daga,“ segir Runólfur.

Hann segir að þjónustan hafi verið minnkuð við þau sem eru með væg ein­kenni, en það séu oftast bólu­settir ein­staklingar.

„Það var erfitt að ráða í þetta í fyrri bylgjum þegar fólk var ekki bólu­sett því þá var fólk með væg ein­kenni sem hríð­versnaði á skömmum tíma. Við sjáum það ekki nema í tak­mörkuðum mæli og höfum því minnkað þjónustuna við þau sem eru með væg ein­kenni og ein­beitum okkur því meira að þeim sem eru með meiri veikindi eða eru al­var­lega veik,“ segir Runólfur.

Staðan tvísýn á spítalanum

Hann segir að fólk sé kallað inn úr sumar­leyfi til að takast á við þetta álag og að þau búist sterk­lega við aukningu meðal smitaðra eftir verslunar­manna­helgina.

„Þetta er mjög þung staða á spítalanum. Þó svo að heilt yfir, ef horft er á þennan stóra hóp smitaðra þá er staðan önnur en í fyrri bylgjum því það voru engar bólu­setningar. En þegar fjöldinn er svona mikill þá þarf ekki marga til að veikjast al­var­lega til að hafa mikil á­hrif á spítalann,“ segir Runólfur.

Hann telur mikil­vægt að muna að þótt svo að það sé talað öðru­vísi um far­aldurinn og við­brögð núna þá sé staðan á spítalanum tví­sýn.

„Staðan á Land­spítalanum er tví­sýn. Við eigum ekki auð­velt um vik að taka við mörgum í við­bót sem eru al­var­lega veikir,“ segir hann að lokum.

Anna Sigrún Baldursdóttir segir að spítalinn vilji vera undirbúinn fleiri innlögnum.
Mynd/Landspítalinn

Opna aðra COVID-deild

Anna Sig­rún Baldurs­dóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu for­stjóra Land­spítalans og starfandi forstjóri spítalans, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að unnið sé að því núna að opna aðra deild til að anna eftir­spurn. Í þessari bylgju hafa alls 24 verið lagðir inn og tvisvar hafi alls fimm lagst inn á einum degi.

„Það eru út­skriftir en þetta er nokkur bratti. Tvisvar í sömu vikunni voru fimm lagðir inn. Það er hröðun í þessu og því erum við að undir­búa opnun annarar deildar. Það er sam­kvæmt plani,“ segir Anna Sig­rún sem segir að spítalinn þurfi alltaf að vera einu skrefi á undan.

„Við viljum vera til­búinn þegar þetta kemur,“ segir Anna Sig­rún sem segir ekkert benda til annars en að inn­lögnum eigi eftir að fjölga í vikunni.