í dag má búast við norðlægri átt og allt frá 3 til 13 metrum á sekúndu og hvössum vindstrengjum suðaustanlands.
Víða verður léttskýjað en él austanlands með snjókomu seint í kvöld. Það kemur fram á vef Veðurstofunnar en í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að veðrið verði áþekkt því sem hefur verið síðustu daga, mikill kuldi og léttur vindur, en að á morgun dragi til tíðinda þegar úrkomubakki leggst yfir landið.
„Seint á morgun, föstudag lítur út fyrir að úrkomubakki leggist yfir vestanvert landið og getur snjóað staðbundið allmikið. Líkur eru á að þessi snjókomubakki verði viðloðandi vestanvert landið fram eftir laugardegi, en færist síðan yfir á austur hluta landsins. Þannig að það lítur út fyrir að veturkonungur minni einnig á sig um vestanvert landið eftir langan þurrviðriskafla,“ segir veðurfræðingur Veðurstofunnar.