Benedikt Bjarnason er einn þeirra sem notar mótorhjólið sitt daglega eins og flestir nota bíla sína. Hann reyndi að fá endurgreidda viðgerð á mótorhjóli sínu í vikunni gegnum átakið „allir vinna“ en fékk höfnun hjá Ríkisskattstjóra. „Þetta snýst ekki um að fá endurgreiddar þessar 8.000 krónur fyrir mig til eða frá. Þetta snýst miklu frekar um að þarna er verið að útiloka hóp og þá einnig alla þá sem gera við mótorhjól frá þessari leið stjórnvalda,“ sagði Benedikt.

Benedikt hringdi í Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að þetta næði ekki til mótorhjóla. „Ég hlýt að hafa misskilið allt saman. Ég þurfti greinilega ekkert að læra umferðarlögin. Ég tilheyri ekki umferðinni,“ sagði Benedikt í stöðufærslu sinni á Facebook. Benedikt notar mótorhjól sitt til og frá vinnu og er það í raun og veru hans eina farartæki. „Ég nota mótorhjólið sem mitt eina ökutæki í allavega átta mánuði á ári á hverjum degi. Við fjölskyldan erum þess vegna bara með einn bíl og ég fæ því far hjá konunni yfir vetrarmánuðina.“ Benedikt var ekki alveg sáttur við þessi svör og vildi gjarnan heyra rökin.

Blaðamaður Fréttablaðsins hafði samband við Ríkisskattstjóra og fékk þau svör að verið væri að vinna eftir orðalagi breytingartillögu laga um virðisaukaskatt, en þar stendur: „Á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skal endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðis­auka­skatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að skattinum barst erindið.“ Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði að verið væri að vinna eftir orðalagi greinarinnar sem alltaf er túlkað þröngt, og þar sem aðeins er talað um bíla í greininni fæst ekki endurgreiðsla fyrir mótorhjól.

Að mati Benedikts ættu lögin að ná til allra skráðra ökutækja til einkanota en ekki bara fólksbifreiða. „Var einhver nefndarmaður smeykur um að ég myndi umturna hjólinu mínu á kostnað skattborgara? Hvað ef ég á Skoda Favorit og læt sprauta hann í kanadísku fánalitunum? Sprautun á fólksbíl virðist vera í lagi, en ekki ef ég læt laga bilaða leiðslu frá rafgeymi í mótorhjólinu,“ sagði Benedikt að lokum.