„Við verðum með nokkra stóra daga í næstu viku,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, um horfur í bólusetningum gegn Covid-19 á næstunni. „Við verðum með Janssen á þriðjudaginn og Pfiz­er á miðvikudaginn. Svo stefnum við á að vera með AstraZenica á fimmtudaginn, en við vitum ekki hvað það verður stór dagur. Það fer eftir því hvort stór sending sem er von á verður komin eða ekki.“

Ragnheiður segir að til séu um 9.000 bóluefnaskammtar fyrir hvern þessara daga. Að loknum boðuðum bólusetningum verði opið hús þar sem sprautað verður með afgangsskömmtum. Þá verði næsta vika sú síðasta þar sem megináherslan verði á að gefa fyrsta skammt bóluefnanna en þar á eftir verði áherslan lögð á að gefa fólki annan skammtinn. „Svo förum við að snúa okkur að öðrum hópum, til dæmis fólki sem býr á landinu en er ekki með kennitölu og fólki sem þegar er með mótefni.“

Um þessar mundir hafa um 239.000 einstaklingar verið bólusettir á Íslandi og eru þar af tæplega 153.800 fullbólusettir.

Ragnheiður telur Íslendinga hafa staðið sig vel í bólusetningaátakinu miðað við önnur lönd og segir það meðal annars skýrast af sterkri menningu fyrir bólusetningum á landinu. Að vísu hafi borið á því að færri hafi mætt í sprautur með bóluefni Janssen en öðrum efnum þótt munurinn sé ekki mikill.

„Ég held að flestir Íslendingar séu mjög jákvæðir fyrir bólusetningum. Hlutföll á bólusetningum barna eru yfirleitt á bilinu 90 til 95 prósent. Það er lítið um að fólk sé að hafna Covid-sprautunum eða tilkynna að það sé hrætt við þær, þótt það séu kannski einstaka háværar gagnrýnisraddir.“