Dómsmálaráðherra segir nýjustu vendingar í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sýna stjórnlaust kerfi.

Allir nítján umsækjendurnir sem synjað var um alþjóðlega vernd og sendir voru úr landi síðastliðið haust eru aftur komnir til landsins. Þetta staðfestir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Jón segir þetta til marks um að verndarkerfið hér á landi sé stjórnlaust, en allir umræddir umsækjendur hafi fengið fulla málsmeðferð hér á landi og notið löglærðs talsmanns, en hafi að lokum verið synjað um vernd. Upphaflega hafi átt að senda 35 úr landi með sömu flugvél.

Aðeins hafi náðst að senda nítján þeirra á brott. Þeir séu nú allir komnir til baka og búnir að endurnýja umsókn sína og „komnir á framfæri íslenskra skattgreiðenda,“ segir Jón.

„Þetta er stjórnleysi,“ segir ráðherrann og bætir við: „Þetta er hringavitleysa. Við erum komin í ógöngur sem þjóð á þessu sviði.“

Jón segir vandann heimatilbúinn.

„Rót hans er sú að löggjöf okkar er linari en landanna í kringum okkur. Og sú fiskisaga flýgur víða sem ýtir undir að hingað koma hópar umsækjenda til að reyna fyrir sér í íslenska kerfinu,“ segir Jón sem ræðir við Fréttablaðið um ráðherraferil sinn – og hvort og hvenær honum ljúki. Hægt er að lesa það að neðan.