Þrír eru nú á gjörgæslu Landspítala vegna COVID-19 og eru þeir allir í öndunarvél en aðeins einn var í öndunarvél í gær. Alls greindust 65 ný smit frá því í gær og eru þau nú orðin 802 talsins.

Rúmlega níu þúsund manns eru í sóttkví en að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis voru um helmingur þeirra sem smituðust í gær nú þegar í sóttkví. Um 2100 manns hafa lokið sóttkvísaðgerðum.

Hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um smit á vefsíðunni covid.is.

Heilbrigðisstarfsfólk fari varlega

Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi í dag að mikilvægt væri að heilbrigðisstarfsmenn hugi vel að smitvörnum, bæði í vinnu og utan hennar, en smit hefur nú komið upp í Landakoti. Ekki er hægt að leggja fólk þar inn að svo stöddu vegna þessa.

Þá hefur Rjóðrinu, hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn, verið lokað, annars vegar þar sem upp kom smit á barnaspítalanum og þar sem færa þarf til starfsfólk en einnig til að vernda viðkvæma hópa.

„Við biðlum til heilbrigðisstarfsmanna að fara sérstaklega varlega innan og utan vinnustaða,“ sagði Alma.