Allir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa verið skikkaðir í skimun eftir að nemandi við Háskólann í Reykjavík sem hafði unnið að verkefni hjá fyrirtækinu greindist með veiruna í gær. Þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið.

Að því er kemur fram í frétt mbl voru allir sem störfuðu á sömu hæð og nemandinn, sem var síðast í húsinu á fimmtudaginn, sendir í sóttkví en enginn annar hefur greinst með veiruna. Þetta er haft eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskar erfðagreiningar.

Að sögn Kára telja þau að ef fleiri hefðu smitast hefði þeir greinst í gær en auk starfsmannanna voru tveir einstaklingar utan fyrirtækisins sendir í sóttkví eftir að hafa verið í tengslum við hann. Samkvæmt gildandi reglum verður fólkið í sóttkví í sjö daga en þá fara þau í aðra skimun.

„Það hefur alls konar áhrif, til dæmis þau að við skimum núna allt húsið,“ sagði Kári aðspurður um áhrif smitsins í samtali við mbl en Íslensk erfðagreining kemur einnig til með að bjóða nemendum Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur að koma í skimun.

Líkt og greint var frá fyrr í dag greindust 13 manns með innanlandssmit í gær og var aðeins einn þeirra í sóttkví.