Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafa gefið út leiðbeiningar um notkun almenningssamgangna sem miða að því að minnka líkur á kórónaveirusmiti.

Samgöngu- og húsnæðismálaráðuneytið segir ljóst að farþegum muni fjölga þar sem slakað hefur verið á takmörkunum í landinu. Því sé nauðsynlegt að gefa út leiðbeiningar til að anna þeim fjölda og tryggja öryggi farþeganna.

Lagt er til að eins metra fjarlægð sé alltaf á milli farþega og huga þurfi sérstaklega að því ef fólk stendur eða situr augliti til auglitis. Þó kemur fram að undir ýmsum kringumstæðum sé ekki mögulegt að viðhalda þeim fjarlægðarmörkum, til að mynda í lengri ferðalögum. Í þeim tilfellum er lagt til að farþegar snúi allir í sömu átt og þannig sé í það minnsta einn metri á milli höfða.

Þá er einnig lagt til að fólk hugi vel að hreinlæti, ferðist með handspritt eða blautþurrkur og taki tillit til annarra farþega. Fólk er hvatt til að ganga eða hjóla styttri vegalengdir og ferðast utan háannatíma. Að lokum eigi þeir sem eru veikir, eða grunar að þeir hafi smitast, ekki að ferðast með almenningssamgöngum.