Skimun á landamærum verður skylda frá og með deginum í dag. ekki verður hægt að velja sóttkví í stað sýnatöku nema um læknisfræðilegar ástæður sé að ræða. Í tilkynningu segir að í ljósi alvarlegrar stöðu faraldursins víða um heim verður núverandi fyrirkomulag sóttvarna á landamærunum með tvöfaldri skimun og 5 til 6 daga sóttkví á milli framlengt til 1. maí. Frá þessu er greint í tilkynningum frá stjórnarráðinu en þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Í tilkynningu segir að það sé mat sóttvarnalæknis að það sé hætt sé við því að smit leki gegnum varnir á landamærum, sérstaklega hjá þeim sem velja 14 daga sóttkví í stað sýnatöku.
„Það er sérlega brýnt nú að stemma stigu við slíku vegna þeirrar fyrirsjáanlegu og afmörkuðu hættu sem stafar af nýju afbrigði veirunnar sem ítrekað hefur greinst hjá sýktum einstaklingum á landamærum. Gjaldfrjáls skimun hefur ekki leitt til þess að fækkað hafi nægjanlega í hópi þeirra sem velja 14 daga sóttkví í stað skimunar,“ segir í tilkynningunni.
Gjaldfrjáls skimun gekk ekki
„Við reyndum í fyrstu lotu að prófa það [gjaldfrjálsa skimun, innsk. blm]. Þó þetta sé lítill hópur þá haga verið brögð að því að sóttkví hafi verið brotin og þegar við sjáum svona mikla aukningu á stöðunni varðandi þetta alvarlega afbrigði af veirunni í kringum okkur og fleiri smit sem eru að greinast á landamærum þurfum við að grípa til þessa,“ segir Svandís.
Hættan virðist vera meira á landamærum núna en innanlands?
„Já, það virðist vera. Við erum að fá mjög góðar tölur innanlands og það er til mikils að vinna að halda í þann árangur. Þannig að þetta varð ákvörðunin. Hún er tiltölulega einföld og tekur gildi í dag við undirritun og birtingu,“ segir Svandís.
Komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin eru áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði.
Vonir standa til þess að á næstu mánuðum muni bólusetning smám saman draga úr þeirri hættu sem af faraldrinum stafar samhliða því sem sóttvarnaaðgerðum ríkja verður áfram beitt til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Því verður fyrirkomulag sóttvarna á landamærum endurskoðað, mánaðarlega, og þá einkum til rýmkunar, eftir því sem aðstæður leyfa.

Litakóðunarkerfi 1. maí
Einnig var í dag tilkynnt að þann 1. maí munu verða tekin varfærin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Frá og með 1. maí verður þá byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.
„Litakóðunarkerfið og það sem tekur gildi 1. maí snýr að framtíðarfyrirkomulagi,“ segir Svandís.
Og það er kannski í takt við það sem fólk hefur kallað eftir með fyrirsjáanleika?
„Já, það er forsætisráðherra sem leggur það fram í sínu samþættingarhlutverki,“ segir Svandís.