Allir fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum voru sýknaðir í Hæstarétti í dag. Dómsuppkvaðning hófst klukkan 14:01 og var lokið um fimm mínútum síðar. Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Júlíusson og Tryggvi Leifsson voru sýknaðir af ákæru um að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Að því loknu voru þeir Sævar, Kristján og Guðjón sýknaðir af ákæru að hafa banað Geirfinni.

Albert Klahn var sýknaður af ákæru um að hafa raskað ummerkjum brotsins með meintri aðstoð sinni við líkflutninga Guðmunds Einarsson.

Mikill fjöldi var samankominn í dómssal og brustu einhverjir aðstandendur í grát þegar dómur hafði verið kveðinn.

Voru sex handtekin árin 1975 og 1976

Þau voru sex ungmennin sem handtekin voru á árunum 1975 og 1976 í tengslum við mannshvörfin tvö. Þau brotnuðu fljótt í einangrunarvistinni og játuðu á sig þá glæpi sem upp á þau voru borin en báru þá von í brjósti að hið sanna og rétta kæmi í ljós þegar málið kæmi til dóms. Nú er sá tími loksins að renna upp fjórum áratugum síðar. 

Það voru þau Sævar Marínó Ciesielski sem var síðar dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir aðild að dauða Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar; fyrir fjársvik, þjófnað og sölu og dreifingu fíkniefna. 

Albert Klahn Skaftason sem var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að tálma rannsókn Guðmundarmálsins og fyrir sölu og dreifingu fíkniefna. 

Tryggvi Rúnar Leifsson sem var dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir aðild að dauða Guðmundar Einarssonar, nauðgun, brennu og þjófnaði. 

Guðjón Skarphéðinsson sem var dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir aðild að dauða Geirfinns Einarssonar og fyrir sölu og dreifingu fíkniefna. 

Kristján Viðar Júlíusson dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir aðild að dauða Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar; innbrot og þjófnað. 

Erla Bolladóttir sem var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir rangar sakargiftir og fjársvik. Mál hennar var þó ekki tekið fyrir í endurupptökumálsins fyrir Hæstarétti. 

Í febrúar á síðasta ári féllst endurupptökunefnd á að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekin upp er varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hafnað.

Málflutningur fór fram fyrr í þessum mánuði.

Sjá einnig: Þolendur íslenska réttarkerfisins