Allir fjór­tán skip­verjar línu­skipsins Valdimars GK hafa greinst með kóróna­veiruna sem veldur CO­VID-19 sjúk­dóminum en sýni voru tekin úr skip­verjunum í dag. Þetta stað­festir Jóhann K. Jóhanns­son, sam­skipta­stjóri al­manna­varna­deildar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að því er kemur fram í frétt Viljans um málið kom upp grunur um smit á fimmtu­daginn þar sem skipið var við veiðar út af Suður­landi. Skipið kom að landi í morgun en að því er kemur fram í frétt Víkur­frétta voru skip­verjarnir mis­veikir.

Í góðu samstarfi við sóttvarnalækni og almannavarnir

Skipið verður sótt­hreinsað og aflanum landað úr því í fram­haldinu en veikindin munu lík­legast seinka því að skipið fari aftur til veiða að sögn fram­kvæmda­stjóra Þor­bjarnar.

Að sögn Jóhanns hefur út­gerðin verið í góðu sam­starfi við bæði sótt­varna­lækni og al­manna­varnir en Viljinn hefur það eftir út­gerðar­stjóra Þor­bjarnar að eftir að fleiri fóru að veikjast var haft sam­band við sótt­varna­lækni og var við­bragðs­á­ætlun fiski­skipa vegna veirufar­aldurs virkjuð.

Koma inn í tölur dagsins á morgun.

Að sögn Jóhanns voru sýnin tekin í dag og verða því smitin inn í tölum dagsins á morgun. „Það er alveg við­búið að tölur dagsins á morgun verða ör­lítið hærri en síðustu daga.“

Jóhann segir þó að þar sem skip­verjarnir hafi að mestu verið í ein­angrun á meðan þeir voru við veiðar hafi þeir vonandi ekki út­sett fleiri fyrir smiti.