„Við vöknuðum upp við það í gærmorgun að það var búið að skera á allar fánalínurnar,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Hellubúum var brugðið í gærmorgun en búið var að skera alla regnbogafána bæjarins niður og segir Eggert Valur málið hundleiðinlegt.

Elín Jóhannsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir verknaðinn ekki hatursglæp heldur hreint og beint skemmdarverk. „Þetta tengist fánunum ekki sem slíkum.“

Tilkynnt til lögreglu

Skemmdarverkið virðist hafa verið unnið í skjóli nætur aðfaranótt mánudagsins og staðfestir Klara Viðarsdóttir, fjármálastjóri Rangárþings Ytra og staðgengill sveitarstjóra, að málið hafi verið tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í gær.

Eggert Valur segir að alls hafi verið skorið á níu regnbogafána, átta sem sveitarfélagið flaggaði og einn sem verslunin á Hellu átti. „Þetta var skorið niður með hníf eða einhverju. Sumir fánarnir lágu á jörðinni, einn fannst í ruslatunnu í nágrenninu og ég veit ekki hvar tveir eru.“

Eggert Valur segir bæjarbúum brugðið vegna málsins.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Bæjarbúar óánægðir

Klara og Eggert Valur eru sammála um að málið sé fyrst og fremst mjög leiðinlegt. Það hafi þó ekki staðið til að flagga fánunum lengur en í tilefni Hinsegin daga sem fóru fram um helgina.

Aðspurð um fjárhagslegt tjón segir Klara það ekki stóra málið í þessu. „Þetta er náttúrulega bara mjög leiðinlegt að einhver finni sig knúinn til að gera svona.“

Klara segir bæjarbúa mjög óánægða vegna málsins og bendir Eggert Valur á að þeim sé eðlilega brugðið.

Að sögn Eggerts Vals er nú unnið að því að skipta um línur á fánastöngum bæjarins en næstu helgi fer fram bæjarhátíðin Töðugjöld og þá verða fánar bæjarins dregnir upp á stangirnar.