Frá og með 1. janúar á þessu ári tók gildi bann við afhendingu burðarpoka úr plasti, sama hvort um ræðir með eða án gjalds.
Bannið á sem sé einungis við um plastpoka og ekki burðarpoka úr öðrum efnum. Í lögunum segir:
„Óheimilt er að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara.“
Á vef stjórnarráðsins er fjallað ítarlega um bannið og þar segir að burðarpokar úr plasti séu bæði þykku pokarnir sem hægt hefur verið að fá eða kaupa í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem til dæmis hefur verið hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða.
Þar kemur einnig fram að bannið taki ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.
Lögin voru sett samþykkt í maí árið 2019 og frá og með 1. september hefur verslunum verið óheimilt að afhenda alla burðarpoka án endurgjalds.
Nánar er hægt að kynna sér ítarefni stjórnarráðsins um bannið hér.