Öllum nem­endum Réttar­holts­skóla hefur verið gert að sæta úr­vinnslu­sótt­kví eftir að smit kom upp hjá nem­enda skólans. For­eldrar hafa verið beðnir um að hafa börnin heima á meðan unnið er að frekari smitrakningu í skólanum.

Í tölvu­pósti sem sendur var á for­eldra og for­ráða­menn skólans kemur fram að smit hafi greinst hjá nemanda í áttunda bekk sem var ein­kenna­laus við greiningu.

Smitaðist ekki í skólanum

„Eins og málið liggur fyrir núna er lík­legast að nemandinn hafi smitast í nær­um­hverfi sínu, ekki í skólanum,“ segja skóla­stjórn­endur í póstinum.

„Sem betur fer höfum við verið frekar öflug í sótt­vörnum, margir með grímur, mikil loftræsing, borð sótt­hreinsuð eftir kennslu­stundir, ár­ganga­skipting í kaffi- og matar­tímum, hand­þvottur, fækkun sam­eigin­legra snerti­flata, ár­ganga­skipt klósett og fleira.“ Bundnar eru vonir við að þessar að­gerðir dragi út líkum á smitum innan­húss.

Farið víða um húsið

"Við erum að kortleggja ferðir nemandans síðustu daga en ljóst er að hann hefur farið víða um skólann, vegna kennslu, eins og allir aðrir nemendur. Þrátt fyrir allar varnir viljum við hafa vaðið fyrir neðan okkur." Því var ákveðið að allir nemendur skólans færu í úrvinnslusóttkví. "Við fáum þá þrjá daga í skólastopp með helginni og munum gera allt til að stöðva smitið. Rakningarteymið hefur ekki enn haft samband við okkur en gerir það líklega fljótlega."

Forráðamenn eru beðnir um að kynna sér reglur um úrvinnslusóttkví og aðstoða börn sín við að virða það. "Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með tölvupóstum því í gegnum póstinn munum við koma skilaboðum til ykkar eins fljótt og hægt er og vonandi losa sem flesta sem fyrst úr sóttkví."