Allir sjö sakborningar í gagnaversmálinu svokallaða neituðu sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Sjömenningarnir ákærðir fyrir stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi síðastliðinn vetur. 

Tveir hafa verið í farbanni undanfarna mánuði, en annar þeirra var leystur úr farbanninu við þingfestinguna. Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni, verður hins vegar áfram í farbanni. 

Mönnunum sjö; Sindra, Matthíasi Jóni Karlssyni, Pétri Stanislav, Hafþóri Loga Hlynssyni, Ívari Gylfasyni, Kjartani Sveinarssyni og Viktori Inga Jónassyni, er gefið að sök að hafa lagt á ráðin, skipulagt, framkvæmt eða átt aðild að innbrotum og þjófnuðum í gagnaverin í desember í fyrra. Í innbrotunum var tölvubúnaði fyrir 42,5 milljónir króna stolið en tjónið af völdum brotanna er metið á 78 milljónir króna, að því er segir í ákærunni. 

Verjendur fjögurra sakborninga fóru fram á frest til að skila greinargerð í málinu. Dómari heimilaði frestinn og verður fyrirtaka þann 4. október næstkomandi. 

Þá segir á vef RÚV að verjendur hafi beðið um að fá afrit af upptökum sem lögregla hefur undir höndum, sem Alda Hrönn Jóhannesdóttir saksóknari hafi hafnað. Hún hafi hins vegar boðist til að koma upp aðstöðu í Reykjavík þar sem þeir gætu skoðað upptökurnar.