Allir loft­gæða­mælar á vegum Um­hverfis­stofnunar eru grænir, sem þýðir að loft­gæðin teljist „mjög góð“ sam­kvæmt fimm punkta skala Um­hverfis­stofnunar, sem sjá má á síðu Um­hverfis­stofnunar um loft­gæði á Ís­landi.

Sig­rún Ágústs­dóttir, for­stjóri Um­hverfis­stofnunar segir ó­lík­legt að til rýmingar komi í nær­liggjandi bæjar­fé­lögum vegna mengunar. „En það er náttúru­lega ekkert úti­lokað í þessu bara út frá því að það getur orðið ein­hver þróun í eld­gosinu,“ segir hún.

Allir loftgæðamælar í nágrenni við eldgosið eru grænir. Sá sem staðsettur er á miðju Reykjanesinu er skammt frá gosinu.
Skjáskot/Umhverfisstofnun

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sig­rúnu hefur rýming ekki komið til tals í þessu eld­gosi, sá mögu­leiki hefur ekki verið ræddur síðan í Holu­hrauns­gosinu, sem hófst í ágúst árið 2014. Þor­steinn Jóhanns­son, loft­gæða­sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun segir á­stæðuna vera sí­breyti­legar vind­áttir á Ís­landi.

„Ef þetta verður svipað gos og hitt, þá kemur ekki til rýmingar. Það er voða­lega gott að vera með loft­gæða­mæla uppi, þeir voru uppi þegar gosið byrjaði svo við gátum strax skoðað þetta,“ segir Sig­rún.

Um­hverfis­stofnun hefur fjölda mæla víða um Suður­nes og á Höfuð­borgar­svæðinu. Nýr loft­gæða­mælir var settur upp og tekinn í gagnið eftir há­degi í gær. „Hann er grænn eins og sakir standa, sem er gott,“ segir Sig­rún.

„Það sem við erum að gera er að fylgjast mjög vel með eld­gosinu, við erum í sam­bandi við Al­manna­varnir um eld­gosið al­mennt,“ segir Sig­rún.

„Það er svo gott við þetta skipu­lag Al­manna­varna að það eru allir við­eig­andi aðilar tengdir inn strax og það er á vegum sótt­varnar­læknis sem þessi heilsu­mál eru rædd. Fólk er búið að hittast og er í stöðugu sam­bandi,“ segir hún.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna ráðleggingar um viðbrögð gasmengun frá eldgosum. Þær ráðleggingar má finna með því að smella hér.