Það skiptir engu máli hvaða pípu þú ert með, ef þú setur meira inn í hana en kemur út, þá eykst þrýstingurinn,“ segir Þorvaldur Þórðarson, jarðvísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um þrýstinginn í aðfærslukerfinu í eldgosinu á Reykjanesi.

Nýjar sprungur opnuðust á gossvæðinu í fyrradag, nánar tiltekið í Meradölum, og í fyrrinótt komu í ljós þar nýjar sprungur sem eru um eins metra djúpar. Þorvaldur segir ekki ólíklegt að ný sprunga eða sprungur opnist á svæðinu. „Við erum búin að sjá þarna þessa viðbót og framleiðnin í gosinu hefur næstum tvöfaldast og kerfið er að ná betra jafnvægi,“ segir hann.

„En ef það er rétt metið að innflæðið sé meira en útflæðið þá þýðir það að yfirþrýstingur sé hugsanlega á kerfinu, sem getur orðið til þess að ný sprunga myndast,“ segir Þorvaldur. Hann segir allt benda til þess að innflæði kviku sé um fimmtán rúmmetrar á sekúndu, en útflæðið með nýju sprungunni sé um tíu rúmmetrar á sekúndu.

„Þetta er mjög líklega það sem gerðist þegar sprungan opnaðist í fyrradag, að það hafi verið yfirþrýstingur á pípunni,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson, jarðvísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
Mynd/Sigtryggur Ari

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum á Reykjanesi frá því að gos hófst í Geldingadölum þann 19. mars síðastliðinn. Í gær var lokað fyrir umferð að svæðinu vegna mengunarhættu og þurftu lögregla og björgunarsveitir að vísa fólki frá. Þó voru vísindamenn á svæðinu.

Aðspurður að því hvort líkur á að nýjar sprungur myndist eða opnist á svæðinu feli í sér aukna áhættu fyrir þau sem ferðist á svæðið, segir Þorvaldur miklu máli skipta hvar á svæðinu fólk er. Hann segist telja líklegast að ef ný sprunga opnist verði það á milli gossvæðanna tveggja. „Það er hugsanlegt að það gerist norður af, en mér þykir heldur ósennilegra að það fari að opnast fyrir sunnan,“ segir Þorvaldur.

„Svo lengi sem fólk heldur sig vel vestan eða austan til við gosstaðina þá ætti það að vera í lagi, en það er ekki gott að vera á milli gosstaðanna eða í beinni línu við þá, það er verra,“ segir hann. Spurður hvort hinn almenni ferðalangur geri sér grein fyrir því hvort hann sé staddur í beinni línu við gosstaðina, segir Þorvaldur best að líta til beggja hliða.

„Ef þú horfir til hægri og sérð gosstað og horfir svo til vinstri og sérð líka gosstað, þá er það ekki góður staður að vera á og mjög skynsamlegt að færa sig,“ segir Þorvaldur. „En ef þú sérð báða gosstaðina fyrir framan þig og ert með vindinn í bakið, þá ertu á ansi góðum stað,“ bætir hann við.

Aflítið gos sem getur þó orðið stórt

Ef gosið í Geldinga- og Meradölum varir í áratugi segir Þorvaldur Þórðarson, jarðvísindamaður, að hraunið sem muni myndast geti teygt sig frá Geldingadölum alla leið niður að Suðurstrandavegi.

Í slíkum gosum myndist stærstu hraun jarðarinnar. Dæmi um slíkt sé hraunið við Skjaldbreið ofan við Þingvelli sem tók líklega um nokkur hundruð ár að myndast.

Þó gosið á Reykjanesi sé afllítið geti það orði stórt gos vari það lengi og það muni hafa varanleg áhrif á yfirborð jarðar með nýju og breytti landslagi.