Allir jöklar á landinu verða horfnir eftir um 200 ár og mun Snæfellsjökull að öllum líkindum vera horfinn eftir um 30 ár. Þetta kemur fram í grein Andra Snæs Magnasonar sem birtist á vef The Guardian í dag. Þar fjallar Andri um bráðnun jöklanna í tilefni þess að minningarathöfn fyrir Ok verður haldin á sunnudaginn.

Ok varð í sumar fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Hópur bandarískra vísindamanna mun ganga upp að öskju Oks á sunnudaginn til að koma þar fyrir minnisvarða. Forsætisráðherra mun fara með hópnum ásamt fleirum og hafa nú um hundrað manns boðað komu sína á minningarathöfnina.

„Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerki er til vitnis um að við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað,“ stendur á minnisvarðanum sem komið verður fyrir.

Minnisvarðanum verður komið fyrir á sunnudaginn.

Andri var beðinn um að rita minningargrein fyrir fyrrum jökulinn en hann segist þá hafa staðið frammi fyrir afar erfiðri spurningu: „Hvernig kveðurðu eitthvað sem þú hefur alist upp við sem svo sjálfsagðan hlut, táknmynd eilífðarinnar?“ segir Andri í pistlinum. Hann bendir á ótrúlegan vandann sem við höfum hunsað hingað til. Allir jöklar landsins verða samkvæmt öllum spám horfnir eftir um 200 ár.

Tilhugsunin óraunveruleg

„Samanlagt mun bráðnun allra jökla landsins hækka sjávarmálið um um það bil einn sentímetra,“ segir hann. „Það virðist ekki mikið en þegar slíkt hið sama gerist um heim allan munu flóð hafa áhrif á hundruð milljóna manna. Það sem veldur svo mestum áhyggjum er bráðnun Himalaya-jöklanna. Þeir eru okið sem ber vatnsbirgðir fyrir um milljarð manns.“

Hann bendir á að um 10% af Íslandi eru þakin ís. Þykkustu hlutarnir eru í Vatnajökli og geta verið um þúsund metrar að þykkt, sem samsvara hæð þriggja Empire State bygginga. „Það er nánast ógerlegt að hugsa sér að eitthvað svo risavaxið sé í raun afar viðkvæmt,“ segir Andri.

„Og spilum við mannfólkið virkilega svo stórt hlutverk í hlýnun jarðar? Þegar að eldgos eiga sér stað spýtast til dæmis milljónir tonna af koltvísýring út úr iðrum jarðar,“ segir Andri að margir spyrji sig. Hann tekur þá dæmi um gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 en úr eldfjallinu komi 150 þúsund tonn af koltvísýringi á hverjum degi. Losunin af völdum manna er hins vegar 100 milljón tonn á dag. „Áhrif af völdum manna er því hliðstæð því að fleiri en 600 svona eldfjöll gjósi á hverjum dag alla daga.“