Allir Janssen bóluefnaskammtarnir eru nú búnir. Þeir ruku út nú síðdegis. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá voru um 500 skammtar eftir fyrir klukkan 17:00 í dag. Mikil og löng röð náði allt að Metro í Glæsibæ í dag en svo róuðust málin nú síðdegis.

Þegar Fréttablaðið heyrði fyrst í Ragnheiði rétt fyrir klukkan 17:00 voru allir þeir sem fengið höfðu boð hvattir til að mæta í höllina, því rólegt var í höllinni. Rúmum hálftíma síðar var ákveðið að gefa bólusetningu frjálsa til handa öllum þeim sem vildu.

Ef ekki tekst að klára skammta af bóluefnum sama dag og þau eru blönduð þá fara þau til spillis. Ekki hefur komið til þess hér á landi frá því að bólusetningar hófust.

Fréttin hefur verið uppfærð.