Tvö greindust með Covid-19 innanlands síðastliðinn sólarhring og voru þau bæði í sóttkví við greiningu. Um er að ræða fækkun frá því í gær þegar fimm innanlandssmit greindust en öll þeirra voru í sóttkví við greiningu.

Þetta er fjórði dagurinn í röð þar sem allir sem greinast eru í sóttkví. Alls eru nú 63 í einangrun með virkt smit á landinu. 165 eru í sóttkví og 1.361 í skimunarsóttkví. Þá eru fjögur inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna Covid-19.

Á landamærunum greindust tveir farþegar með veiruna, þar af var einn með virkt smit en beðið er eftir mótefnamælingu í hinu tilvikinu. Alls voru tekin 837 sýni á landamærunum í gær.

Bólusett með öllum bóluefnum

Í kringum 24 þúsund einstaklingar verða bólusettir í vikunni með öllum fjórum tegundum bóluefna sem í boði eru hér á landi.

Samtals fá um 12 þúsund bóluefni Pfizer, skiptist jafnt í fyrri og seinni bólusetningu. Sjö þúsund fá bólusetningu með bóluefni Moderna og fjögur þúsund verða bólusett með Janssen bóluefninu. Þá verða 1500 einstaklingar bólusettir með bóluefni AstraZeneca.