Sjónvarpsáhorf á Eurovision náði nýjum hæðum hér á landi samkvæmt tölum frá keppninni því 99,9 prósent þeirra sem voru með sjónvarpið kveikt á lokakvöldinu voru með stillt á gleðina í Rotterdam.

Gallup segir reyndar að áhorfið hafi verið í kringum 70 prósent á lokakvöldinu en sex vinsælustu dagskrárliðir RÚV í Eurovision-vikunni koma frá Rotterdam.

Felix Bergsson, einn helsti sérfræðingur landsins í Eurovision-fræðum og fararstjóri íslenska hópsins undanfarin ár, segir að tölurnar komi kollegum sínum úti í hinum stóra Eurovision-heimi alltaf jafn mikið á óvart. „Við erum líka með gott áhorf þótt Ísland hafi ekki verið með á laugardeginum. Það kemur kollegum mínum eiginlega enn meira á óvart að sjá þá staðreynd. Að við séum að horfa þrátt fyrir að vera ekki með.“

Bretar höfðu meiri áhuga í ár en 7,4 milljónir horfðu á þar í landi og fóru áhorfstölur upp um sex prósent frá Tel Aviv 2019. Áhorfið í Þýskalandi fór upp um þrjú prósent. Þær þjóðir sem eru nálægt okkur í áhorfi voru Finnar með 81,4 prósent og gestgjafarnir, en 78,5 prósent þar í landi voru með stillt á lokakvöldið.

„Það var einstaklega mikill áhugi á keppninni í ár og áhorfstölur eru auðvitað með miklum ólíkindum, sérstaklega hér heima. Það er greinilegt að þjóðin var vel með á nótunum og var glöð að fá sitt Eurovision partí – sem var markmið Daða Freys,“ segir Felix sem var þó ekki búinn að sökkva sér ofan í áhorfstölurnar.

Hann segir að lykillinn sé að búa til spennu fyrir öðrum en atriði Íslands, sem hafi tekist vel á undanförnum árum. Þá sé einstakt að aðrir miðlar séu að fjalla um keppnina af svona miklum þunga. Bylgjan spili Eurovision-lög, Fréttablaðið og Morgunblaðið skrifi um keppnina og netmiðlar keppast um að skrifa um það sem sé fréttnæmt.

„Aðrir miðlar eru mjög duglegir að fjalla um keppnina og það hefur klárlega áhrif. Það er stundum gert grín að hrokanum í stóru þjóðunum, að þeir viti ekki neitt hvað aðrir eru að gera. Hafi lítinn áhuga á öðrum en sjálfum sér. Það er þó að breytast, í Bretlandi til dæmis. Þar voru lög að detta inn á topplista. Velgengni Daða þar í landi hefur pottþétt hjálpað keppninni og honum auðvitað líka en fólk var til í að halda með honum en ekki bara sínu eigin breska atriði.“

Felix bendir einnig á að Íslendingar séu stoltir af sínum keppendum á alþjóðasviðinu, hvort sem það eru listir eða íþróttir. „Við stöndum með okkar fólki og nálgumst þetta eins og stór fjölskylda. Öllum finnst þeir líka eiga hlut í hverju atriði því við erum fljót að verða nálægt hvert öðru með ættfræði eða öðru.“