Sveitar­stjórn Húna­þings vestra hefur sent frá sér harð­orða yfir­lýsingu vegna al­var­legra að­stæðna í sveitar­fé­laginu síðustu daga í kjöl­far ó­veðursins sem gekk yfir landið. Segir þar að ljóst sé að allir helstu opin­beru inn­viðir sam­fé­lagsins hafi brugðist í veður­á­hlaupinu.

Sveitar­stjórnin tekur því í sama streng og sveitar­stjórn Skaga­fjarðar sem einnig sendi frá sér harorða yfir­lýsingu fyrr í dag, líkt og Frétta­blaðið greindi frá. Í sinni yfir­lýsingu sagði sveitar­stjórnin að á­standið í byggðar­lögum á norðan­veru landinu væri ó­boð­leg.

Í yfir­lýsingu sveitar­stjórnar Húna­þings vestra er tekið fram að starfs­fólk og sjálf­boða­liðar sem staðið hafi vaktina hafi unnið þrek­virki síðustu daga, við að koma á raf­magni, fjar­skiptum og greiða fyrir sam­göngum. Fórn­fýsnin sé í­búum al­ger­lega ó­metan­legt.

Nú hafi Húna­þing vestra verið raf­magns­laust í rúm­lega fjöru­tíu klukku­stundir, hlut sveitar­fé­lagsins ekki enn kominn með raf­magn og ekki vitað hve lengi það á­stand varir. Ljóst sé að nú þegar hafi tals­vert tjón orðið hjá í­búum og eykst það eftir því sem tíminn líður.

Ó­á­sættan­legt að tengi­virkið í Hrúta­tungu hafi verið ó­mannað

„Það er al­ger­lega ó­við­unandi að grunn­stofnanir sam­fé­lagsins, RA­RIK, Lands­net og fjar­skipta­fyrir­tækin hafi ekki verið betur undir­búin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunar­sveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálf­boða­vinnu, vel undir­búin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á.“

Þá segir enn fremur í yfir­lýsingunni að ó­á­sættan­legt sé að tengi­virkið í Hrúta­tungu hafi verið ó­mannað „þrátt fyrir yfir­lýsingar Lands­nets um annað.“

„Sveitar­stjórn Húna­þings vestra gerir þá grund­vallar­kröfu að á svæðinu sé mann­afli sem getur brugðist við með skömmum fyrir­vara. Starfs­stöð RA­RIK á Hvamms­tanga er ein­mennings­starfs­stöð og hefur því ekki burði til að takast á við að­stæður sem þessar. Nú stendur fyrir dyrum að RA­RIK leggi niður starfs­stöðina á Hvamms­tanga sem sveitar­stjórn telur með öllu ó­við­unandi. Að­stæður síðustu daga sýna fram á mikil­vægi þess að á Hvamms­tanga sé starfandi vinnu­flokkur með a.m.k. tveimur til fjórum stöðu­gildum. Engin vara­afls­stöð er í Húna­þingi vestra og hefði verið hægt að lág­marka vandann ef slík stöð væri stað­sett á Hvamms­tanga.“

Öryggis­hlut­verk Ríkis­út­varpsins brugðist al­gjör­lega

Þá er bent á í yfir­lýsingunni að í kjöl­far raf­magns­leysisins hafi öll sam­skiptin dottið út, far­síma­sam­band og Tetra kerfi lög­reglu. Lífs­spurs­mál sé að í­búar sveitar­fé­lagsins geti náð í við­brags­aðila ef al­var­leg slys eða veikindi ber að höndum.

„Sveitar­stjórn Húna­þings vestra gerir þá grund­vallar­kröfu að á svæðinu sé mann­afli sem getur brugðist við með skömmum fyrir­vara. Starfs­stöð RA­RIK á Hvamms­tanga er ein­mennings­starfs­stöð og hefur því ekki burði til að takast á við að­stæður sem þessar.

Nú stendur fyrir dyrum að RA­RIK leggi niður starfs­stöðina á Hvamms­tanga sem sveitar­stjórn telur með öllu ó­við­unandi. Að­stæður síðustu daga sýna fram á mikil­vægi þess að á Hvamms­tanga sé starfandi vinnu­flokkur með a.m.k. tveimur til fjórum stöðu­gildum. Engin vara­afls­stöð er í Húna­þingi vestra og hefði verið hægt að lág­marka vandann ef slík stöð væri stað­sett á Hvamms­tanga.“

Segir í yfir­lýsingunni að graf­alvar­legt að ekki sé starfs­stöð lögrelgu á svæðinu sér­stak­lega við að­stæður líkt og þessar. Sveitar­stjórnin hafi í­trekað vakið máls á því án nokkurra undir­tekta. Þá lýsir sveitar­stjórnin á­hyggjum yfir því að ekki sé vara­afl­stöð við Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands Hvamms­tanga. Er hvatt til að bætt verði úr því hið snarasta en sveitar­stjórnin mun á næstu dögum óska eftir fundum með RA­RIK, Lands­neti, Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands, lög­reglu og stjórn­völdum.