Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur gefið það út að hann muni flýta dagsetningunni þegar allir óháð aldri munu geta óskað eftir bólusetningu í öllum ríkjum Bandaríkjanna en áður var sú dagsetning þann 1. maí. Nú munu öll ríki þurfa að bjóða upp á bólusetningu fyrir alla fyrir 19. apríl næstkomandi.

Embættismaður Hvíta hússins, sem vildi ekki láta nafn síns getið, greindi frá málinu í samtali við AP fréttastofuna en Biden á sjálfur eftir að tilkynna breytinguna. Hann tilkynnti aftur á móti í síðustu viku að um það bil 90 prósent Bandaríkjamanna gætu óskað eftir bólusetningu fyrir 19. apríl.

Sífellt fleiri ríki hafa undanfarnar vikur boðið öllum þeim sem eru yfir 18 ára, og í sumum tilfellum 16 ára, upp á bólusetningu en misjafnt er milli ríkja hvenær boðið verður upp á bólusetningu fyrir alla. Aðeins fjögur ríki gáfu sér frest til 1. maí en önnur ríki gáfu sér frest til 19. apríl eða fyrr.

Biden mun síðar í dag heimsækja bólusetningarmiðstöð í Virginíu og mun síðan í kjölfarið vera með ávarp um stöðu bólusetningar frá Hvíta húsinu. Þar er gert ráð fyrir að hann muni tilkynna að 150 milljón skammtar af bóluefni hafi þegar verið gefnir á landsvísu.

Forsetinn hefur einsett sér að ná 200 milljón skömmtum fyrir 30. apríl, en þá verða 100 dagar liðnir frá því að hann tók fyrst við embætti forseta. Upprunalega var það markmið 100 milljón skammtar en þar sem það náðist tiltölulega fljótt ákvað hann að setja sér nýtt markmið.