Mikið verkefni er fram undan við orkuskiptin sem flestir eru sammála um að séu óumflýjanleg og verði að gerast mun hraðar en áður var talið. Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis- og orkumálaráðherra og er því í leiðandi hlutverki í þessu verkefni.

Að sögn Guðlaugs Þórs stendur Ísland framarlega þegar kemur að því að skipta út bensíni og dísil fyrir umhverfisvænar bifreiðar. „Um 11 prósent almenna bílaflotans eru eins og er orðin rafvædd og standa einungis Norðmenn okkur framar í þeim efnum. En, betur má ef duga skal og það er algjörlega ljóst að við þurfum að gefa vel í enda er útfösun jarðefnaeldsneytis einn mikilvægasti þátturinn ef okkur á að takast að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og snúa að kolefnishlutleysi og grænum orkuskiptum.“

Guðlaugur Þór bendir á áhugaverða greiningu sem Samorka gerði á hleðsluhegðun íslenskra rafbílaeigenda sem hefur reynst mjög verðmæt til þess að kortleggja betur tækifærin sem fyrir liggja sem og þá flöskuhálsa í kerfinu sem þörf er á að leysa. „Þar kemur fram að hleðsluþörfinni er fyrst og fremst sinnt með heimahleðslum og að flöskuhálsar í núverandi innviðum á höfuðborgarsvæðinu eru færri en talið var í fyrstu. Þetta er er mjög jákvætt enda verður kostnaður vegna innviða því ekki eins hár og talið var í fyrstu.“

Þetta þýðir að verkefnin varðandi uppbyggingu hleðslustöðva verða fremur úti á landsbyggðinni en í þéttbýli.

„Lengri ferðalög um landið, bæði fyrir okkur Íslendinga og erlenda ferðamenn, bjóða auðvitað ekki upp á heimahleðslu. Við höfum á undanförnum árum verið að taka stór skref í því að styrkja hleðslunetið okkar víða um landið, Ísorka og ON hafa til að mynda gert góða hluti í því. Í úthlutun Orkusjóðs sem kynnt var nú á dögunum er að finna 70 flott verkefni þar sem verið er að styrkja við uppbyggingu hleðslustöðva en flest þeirra eru á landsbyggðinni. Vaxandi fjöldi rafbíla og öflugra hleðslunet mun leiða af sér jákvæða þróun á þjónustuframboði í kringum hleðslustöðvar. Frumkvöðlar munu þá sjá hag í því að stíga inn í og grípa þau tækifæri sem skapast í kringum hleðslustöðvarnar,“ segir Guðlaugur Þór.

Að sögn Guðlaugs Þórs er í mörg horn að líta þegar kemur að skipulagi og úthlutun lóða með tilliti til innviðauppbyggingar sem styðja muni við rafbílavæðingu landsmanna sem og rafbílavæðingu smærri og meðalstórra bílaleigubíla. „Reykjanesbær hefur til að mynda verið að taka mjög framsýnar ákvarðanir í þessum efnum. Slík framsýni mun gera okkur kleift að ganga lengra og klára verkefnið á skemmri tíma en ella. Við viljum sjá framtíð þar sem við getum tekið á móti ferðamönnum og akstur á rafmagnsbíl verður hluti af þeirra upplifun við að heimsækja Ísland.“

Eitt stærsta tækifærið sem við höfum í hendi okkar núna þegar kemur að því að hraða rafvæðingu bílaflotans snýr að því að „allir geta selt rafmagn“. „Við erum búin að liggja yfir þessu vandamáli sem er rafvæðing bílaflotans og þá sér í lagi bílaleiguflotans, undanfarna mánuði. Í þeirri vinnu tókum við eftir því, þegar við vorum að skoða erlend fordæmi, að í Finnlandi er hægt að kaupa rafmagn af ýmsum aðilum í ferðaþjónustu og aðilum í annarri þjónustu, án þess að gefið sé út sérstakt orkusöluleyfi til þeirra. Þessi heimild er til staðar hér heima og í stuttu máli geta því allir selt rafmagn.

Gott dæmi um þetta í framkvæmd væri þá að veitingahús eða aðili í bændagistingu gæti boðið upp á einfalda tengingu gegn föstu gjaldi fyrir sína viðskiptavini án þess að fjárfesta í dýrum búnaði. Við höfum í mörg ár getað nálgast þessa þjónustu á tjaldsvæðum fyrir hjólhýsi og fleira. Allir geta útvíkkað þetta módel til að það nái til rafbíla. Þetta er gott dæmi um tækifæri sem er einfalt að grípa og við eigum tvímælalaust að nýta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og orkumálaráðherra, sem sér fram á ærin verkefni í málaflokknum sem nú er í brennidepli. ■

Ráðherrann er vígalegur að sjá með rafmagnstengi í hvorri hendi.
Guðlaugur Þór er fyrstur til ráðherra til að fara með bæði umhverfis- og orkumál.