Hver sem er gat greitt at­kvæði í könnun Reykja­víkur­borgar um til­högun skóla­starfs í Foss­vogs­skóla, en borgin sendi for­eldrum og kennurum könnun þar sem þrír kostir voru í boði.

Eins og greint var frá fyrir helgi ríkti mikil ó­á­nægja með þá á­kvörðun að koma nem­endum fyrir í kjallara og and­dyri í­þrótta­húss Víkings. For­eldrar mót­mæltu harð­lega og lögðu fram þá kröfu að borgin fyndi aðra kosti og brást borgin við með því að senda út um­rædda könnun.

Morgun­blaðið greinir frá því í dag að hver sem er hafi getað tekið þátt í könnuninni og hefur Frétta­blaðið það einnig stað­fest. Að því er fram kemur í frétt Morgun­blaðsins er vitað til þess að ein­staklingar sem hafa engin tengsl við Foss­vogs­skóla eða starfið þar hafi tekið þátt í könnuninni. Þá er tekið fram í frétt Morgun­blaðsins að blaða­maður blaðsins hafi sann­reynt þetta með eigin þátt­töku.

Haft er eftir Karli Óskari Þráins­syni, for­manni for­eldra­fé­lags Foss­vogs­skóla, að full­trúar skóla­ráðs og for­eldra­fé­lagsins hafi komið efa­semdum um lög­mæti könnunarinnar á fram­færi við skóla­stjórn­endur og Skúla Helga­son, for­mann skóla- og frí­stunda­ráðs borgarinnar, en ekki sé vitað til þess að brugðist hafi verið við þeim at­huga­semdum.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrir helgi höfðu for­eldrar rétt tæpan sólar­hring til að svara könnuninni og kynna sér kostina sem í boði voru. Lauk könnuninni í há­deginu á laugar­dag.