Samfylkingin mælist nú stærsti flokkurinn í Reykjavík með 26,4 prósenta fylgi, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Um er að ræða eilítið meira fylgi en í niðurstöðum kosninganna 2018 þegar flokkurinn fékk 25,9 prósent atkvæða.

Flokkarnir sem mynda meirihluta í Reykjavík bæta allir við sig fylgi frá kosningum. Samanlagt fylgi meirihlutans er 54,7 prósent samkvæmt könnuninni en samanlagt kjörfylgi þeirra er 46,4 prósent.

Hvað­a flokk eða list­a mynd­ir þú kjós­a ef kos­ið yrði til borg­ar­stjórn­ar í Reykj­a­vík í dag?

Fréttablaðið.

VG næði manni af Sjálfstæðisflokki

Píratar mælast með 10,5 prósent og bæta við sig tæpum þremur prósentum frá kosningum. Bæði Viðreisn og Vinstri græn mælast með 8,9 prósenta fylgi. Um verulega fylgisaukningu er að ræða hjá VG sem fékk 4,6 prósent atkvæða í kosningunum og myndi flokkurinn bæta við sig einum borgarfulltrúa.

Flokkarnir sem eru í minnihluta í borginni tapa hins vegar allir fylgi samkvæmt könnuninni nema Sósíalistaflokkur Íslands sem fékk 6,4 prósent í kosningunum en mælist nú með 6,6 prósent fylgi.

Fylgi Miðflokksins dalar

Vigdís Hauksdóttir situr í borgarstjórn fyrir Miðflokkinn. Vigdís mælist enn inni þótt flokkurinn dali.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar einum borgarfulltrúa og mælist með 25,2 prósent sem er 5,6 prósentum undir kjörfylgi flokksins.

Miðflokkurinn dalar um rúmlega eitt og hálft prósent og Flokkur fólksins fengi ekki mann kjörinn samkvæmt könnuninni og fer úr 4,3 prósentum niður í 3 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir hins vegar við sig einu prósenti frá kosningum og ætti afturkvæmt í borgarstjórn með einn fulltrúa.

Könnunina gerði Gallup fyrir Samfylkinguna á tímabilunum 6. nóvember til 13. desember 2020 og 28. janúar til 14. febrúar 2021. Um netkönnun var að ræða og 1.054 svöruðu henni. Tæp 62 prósent svarenda tóku afstöðu til einstakra stjórnmálaflokka. Rúm 11 prósent sögðust myndu skila auðu, ekki kjósa eða vildu ekki svara spurningunni en 26,9 prósent svarenda sögðust ekki vita hvaða flokk þau myndu kjósa ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga nú.

Hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa ef kosið yrði til borgarstjórnar í Reykjavík í dag?

Tæp 27 prósent sögðust ekki vita hvaða flokk þau myndu kjósa.
Gallup.

Uppfært: Í fréttinni sagði upphaflega að allir flokkar minnihlutans töpuðu fylgi samkvæmt könnuninni. Þetta er ekki rétt. Sósíalistaflokkur Íslands bætir lítillega við sig samkvæmt könnuninni og hefur fréttin því verið leiðrétt.