Ríkis­stjórnin á­kvað á fundi í dag að eigi síðar en frá og með mið­viku­deginum 19. ágúst næst­komandi verði allir komu­far­þegar skimaðir tvisvar við komuna til Ís­lands. Fyrri sýna­taka verður á landa­mærum, að því búnu ber komu­far­þegum að fara í sótt­kví í 4-5 daga þangað til niður­staða er fengin úr seinni sýna­töku.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaða­manna­fundi ríkis­stjórnarinnar sem hófst klukkan 14:15 í Safna­húsinu við Hverfis­götu.Á fundinum fara Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, Alma Möller, land­læknir og Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir yfir stöðu mála.

Þór­ólfur Guðna­son lagði fram minnis­blað til ráð­herra í vikunni og þar lagði hann til níu mögu­leika til á­fram­haldandi að­gerða á landa­mærum. Sagði hann enga þeirra galla­lausa en sumir betri en aðrir. Ljóst er að ríkis­stjórnin hefur valið þá leið sem Þór­ólfur taldi á­hrifa­ríkasta til sótt­varna.

Ákvörðunin tekin í ljósi þróunar heimsfaraldursins

Í til­kynningu frá ríkis­stjórninni kemur fram að á­kvörðunin um tvö­falda skimun og sótt­kví í 4-5 daga sé tekin í ljósi þess hvernig veiran hefur þróast á heims­vísu og hér innan lands.

Bent er á að tíðni smita vegna Co­vid-19 fari vaxandi í ná­granna­löndum og um allan heim. Þá sé enn verið að kljást við hóp­sýkingu sem upp hefur komið hér á landi án þess að vitað sé hvernig það af­brigði veirunnar barst inn í landið. Loks liggur fyrir að sótt­varna­læknir telur þessa leið á­hrifa­ríkasta frá sótt­varna­sjónar­miði.

„Við herðum þessar reglur til að lág­marka hættuna á nýjum smitum og gefa okkur það svig­rúm sem er nauð­syn­legt til að ná tökum á stöðu far­aldursins hér innan­lands og með þessu teljum við okkur líka vera að draga úr á­hættunni á því að frekari raskanir verði á lífi lands­manna vegna sótt­varnar­að­gerða innan­lands,“ segir Katrín.

Allir farþegar, utan barna fædd 2005 og síðar, skimaðir

Þá kemur fram í til­kynningunni að helsta breytingin sem leiðir af þessari á­kvörðun er sú að allir far­þegar, fyrir utan börn fædd 2005 og síðar, verða skimaðir við komu til landsins.

Undan­farið hafa far­þegar frá til­teknum ríkjum verið undan­skildir. Í þeim ríkjum er far­aldurinn að taka sig upp að nýju og erfitt hefur reynst að hafa eftir­lit með því að far­þegar hafi í raun dvalið 14 daga í við­komandi landi.

Þá ber öllum að fara í sýna­töku 2 til þess að tryggja betur að smit greinist hjá þeim sem eru ný­lega smitaðir. Hingað til hefur sú krafa einungis átt við Ís­lendinga og þá sem hér eru bú­settir eða koma til lengri tíma dvalar.

Fyrstu 4-5 dagana þurfa við­komandi að vera í sótt­kví sem er öruggara og skýrara fyrir­komu­lag en svo­kölluð heim­komu­smit­gát sem mun þá heyra sögunni til, að því er fullyrt í tilkynningunni.

Reglur um forskráningu farþega hertar

Þá kemur fram í til­kynningunni að loks verði reglur um for­skráningu far­þega hertar. Er það gert til að tryggja að nauð­syn­legar upp­lýsingar liggi fyrir áður en komið er til landsins.

Þessi á­kvörðun er byggð á þeirri verð­mætu reynslu sem fengist hefur við skimun á landa­mærum frá 15. júní sl. þar sem sam­starf heilsu­gæslunnar, Land­spítala og Ís­lenskrar erfða­greiningar hefur verið lykil­at­riði undir yfir­stjórn sótt­varna­læknis og með full­tingi landa­mæra­eftir­lits og al­manna­varna­deildar lög­reglu.

Nú eru reglur hertar til að lág­marka enn frekar hættuna á nýjum smitum með öryggi lands­manna og lýð­heilsu að leiðar­ljósi. Með þessu er talið að dregið verði úr líkum á því að frekari raskanir verði á dag­legu lífi lands­manna vegna sótt­varnar­að­gerða innan­lands.

Á­fram verður fylgst grannt með þróun mála í öðrum ríkjum og reglur endur­metnar með hlið­sjón af henni. Hér eftir sem hingað til metur sótt­varna­læknir með reglu­bundnum hætti hvort lönd séu lá­g­á­hættu­svæði og fari þá yfir í fyrir­komu­lag ein­faldrar skimunar á landa­mærum.

Þá minnir ríkis­stjórnin á ein­stak­lings­bundnar smit­varnir; hand­þvott, sprittun og tveggja – metra regluna hér innan­lands.

Fréttin hefur verið upp­færð.