Dagur barnsins er alltaf á sunnudegi í lok maí ár hvert, eftir að Alþingi samþykkti þingsályktun þess efnis árið 2007. „Tilgangur dagsins er að hvetja foreldra til samveru með börnum sínum og hlusta á sjónarmið barna, en það er einmitt það sem við höfum verið að leggja áherslu á undanfarin misseri,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Barnaþing var haldið í fyrsta sinn í nóvember á síðasta ári, sama ár og Barnasáttmálinn fagnaði þrjátíu ára afmæli. „Nú er það í lögum umboðsmanns barna að halda barnaþing annað hvert ár og var það haldið daginn eftir alþjóðlegan dag barna sem er 20. nóvember ár hvert. Við fengum slembivalið úrtak frá Þjóðskrá af börnum á aldrinum 11 til 15 ára og buðum þeim að koma á þingið.

Það fór svo að það voru 140 börn sem mættu á fundinn í Hörpu. Þar vorum við með opnunardagskrá í Norðurljósasal, með forseta Íslands, ráðherrum, þingmönnum og Vigdísi Finnbogadóttur, verndara barnaþingsins. Daginn eftir var hið eiginlega barnaþing í Silfurbergi þar sem börnin sátu við hringborð og ræddu þau málefni sem á þeim brenna.“

Salvör segir að fjölbreytt efni hafi verið rædd á þinginu, en notuð var svipuð aðferðarfræði og á þjóðfundunum, þar sem fundargestir fengu opna spurningu í upphafi og svo var svörum þeirra safnað saman. „Nú erum við búin að slá alla gulu miðana inn og þegar við tökum þá saman kemur í ljós að börn eru að hugsa um afar fjölbreytt málefni. Á nánast hverju borði voru þó rædd skólamál og umhverfismál svo dæmi séu tekin.“

Mikið álag á fjölskyldum

Salvör segir nokkur málefni hafa átt mikinn samhljóm meðal barnaþingmanna, eins og um heimanámið. „Þau vilja minna heimanám. En þau voru líka að spá í matinn í mötuneytunum og hvort það væri ekki hægt að bregðast við ef þau gleymdu nestinu sínu. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér með heimanámið, þar sem sú krafa var svo áberandi,“ segir Salvör, þó hún viðurkenni að líklega hefði hún einnig komið fram hjá fyrri kynslóðum.

„Það er mikið álag á fjölskyldum og það er ekkert endilega mikið næði á þeim tíma sem fjölskyldan kemur saman, til að sinna heimanámi og því getur það valdið streitu. Það er því full ástæða til að skoða þessar óskir barnanna.“ Salvör bendir á að börnin hafi ekki aðeins verið að hugsa um sig sjálf þegar þau voru beðin um að setja óskir sínar fram. „Mannréttindamál eru þeim ofarlega í huga. Þau nefndu til dæmis mikilvægi þess að allir fengju kennslu í táknmáli, og að allir fengju frelsi til að vera þeir sjálfir. Þau er u mjög upptek in af umhverfismálum og plastnotkun og nefna þessi atriði oft. Þau eru líka að hugsa um heimsmálin, og áhersluna á frið í heiminum og svo vilja þau meiri tíma með fjölskyldunni. Það kemur okkur ekki á óvart að þau leggja mikla áherslu á heilsu og líðan. Þau tala um að andleg heilsa sé jafn mikilvægt og líkamleg heilsa og geðheilbrigðismál eru þeim ofarlega í huga. „Og að leggja áherslu á að börnum sem líði illa sé hjálpað.“

Salvör segir börnin hafa verið einbeitt og unnið vel. „Þeim var skipt niður á borð þar sem þau voru ásamt borðstjóra fyrir hádegi, en eftir hádegið mættu fullorðnir og settust við borðin með þeim. Það voru þingmenn, fólk úr sveitarstjórnum og félagasamtökum, sem börnin svo kynntu hugmyndir sínar fyrir og áttu samtöl við.“

Börn afhentu Katrínu Jakobsdóttur skýrsluna sem unnin var eftir Barnaþingið, í nóvember á síðasta ári og vonast Salvör til að það sem þar kemur fram verði tekið fyrir á Alþingi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ráðherrar hafa nú fengið skýrsluna afhenta og segist Salvör vonast til að unnið verði unnið úr henni og ætlar embættið að fylgja því eftir. „Við myndum gjarna vilja hafa einhverja umræðufundi um tiltekin mál og reyna að ýta þeim áfram. Það er ákveðið aðhald í því að barnaþingið sé annað hvert ár. Árið 2021 verðum við að sýna fram á að eitthvað hafi breyst á næsta þingi og börnin hafi haft áhrif. Það er mjög mikilvægt.“

Salvör telur að slembiúrtakið hafi orðið til þess að hópurinn hafi orðið ágætis þverskurður af íslenskum börnum á umræddum aldri og það skipti máli. „Ef við hefðum óskað eftir tilnefningum er líklegra að við hefðum fengið hóp félagslegra sterkra og virkra barna, en við lögðum okkur fram um að fá fjölbreyttan hóp.“

Hávaði í fullorðnum

Þegar heimasíða embættisins, www. barn.is, er skoðuð, blasa við á forsíðu fyrirspurnir barna sem embættið hefur svarað. Rétt eins og málefnin á barnaþinginu eru málefnin sem börnin spyrja út í á heimasíðunni, fjölbreytt. Áfengisaldur, hávaði í fullorðnum og flutningar í eigin íbúð eru dæmi um það sem börnin vilja fá svör við, en hægt er að senda erindi til embættisins og fá erindi frá börnum alltaf forgang.

„Við vorum að opna nýja heimasíðu og erum að leggja áherslu á að vera enn aðgengilegri fyrir börn og ungmenni. Við fáum skemmtilegar og fjölbreyttar spurningar, eins og til dæmis um hvort foreldrar megi vera með hávaða á kvöldin,“ segir Salvör. „Þetta er lítið embætti og við höfum takmarkað bolmagn, en það er mikilvægt að við séum sýnileg og að börn viti að við séum til og þau geti sent okkur erindi.“

Aðspurð hvort fyrirspurnum til embættisins hafi fjölgað undanfarið á tímum samkomubanns, segist Salvör ekki geta neitað því. „Í byrjun apríl settum við upp upplýsingasíðu um kórónuveiruna og upplýsingar um hvert börn geta leitað ef þau þurfa aðstoð. Við vitum að það eru ákveðnir hópar í meiri hættu en aðrir í þessum aðstæðum. Það er mikilvægt að við finnum leiðir til að bregðast við, að kennarar séu meðvitaðir um að við getum verið að tapa börnum út úr skólunum. Skólinn skiptir svo miklu máli félagslega fyrir börn.

Ef börn eru ekki að mæta í skóla, er það vísbending um að það sé eitthvað að, svo það er hægt að fylgjast svo vel með í gegnum skólakerfið. Nú þegar los varð á skólanum í samkomubanni er hætta á að þeir sem eru í viðkvæmasta hópnum detti fyrst út,“ segir Salvör að lokum.