Róbert Spanó fjallaði í fyrsta opinbera erindi sínu frá því hann var kjörinn forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, um grundvallarregluna um sjálfstæði dómsvaldsins og lýðræðislega þýðingu mannréttinda-laga. Erindið flutti Róbert á vettvangi samstarfs Kaupmannahafnarháskóla, iCourts og Verfass­ungsblog, eins helsta vefmiðils á sviði Evrópuréttar og mannréttinda í Evrópu.

Í erindinu vék Róbert bæði að dómaframkvæmd MDE og þeim tegundum mála sem dómstólnum berast og varða sjálfstæði dómsvaldsins. Hann kom einnig inn á vaxandi umræðu á undanförnum misserum um samspil dómstarfa og stjórnmála.

„Við þurfum bara að vera opinská um þetta. Í umræðunni er jafnvel fullyrt að dómsvaldið sé farið að ógna lýðræðislegri, pólitískri ákvörðunartöku,“ sagði Róbert og bætti við: „Þetta á sérstaklega við í mannréttindamálum; málum þar sem dómarar beita mannréttindareglum byggðum á Mannréttindasáttmála Evrópu og sem lögfestar hafa verið í stjórnarskrá eða önnur landslög.“

Róbert lagði áherslu á mikilvægi varfærni í þessari umræðu því málefnið sé einfaldlega of flókið til að leyfa alhæfingar um að dómarar noti vald sitt í andstöðu við þrígreiningu ríkisvalds.

Lýðræðið leyfi ekki allt

„Dómstólarnir gegna því mikilvæga hlutverki að tryggja og vernda réttindin í samræmi við stjórnskipunarreglur ríkja sinna á sviðum bæði lagalegs og pólitísks jafnréttis. „Dómstólar og stjórnmál eru hvort tveggja mikilvægir liðir í lýðræðisþjóðfélagi og útiloka því ekki hvort annað,“ sagði Róbert og vísaði til þess mikilvæga hlutverks dómstóla að vernda réttindi minnihlutans gagnvart ofurvaldi meirihlutans í lýðræðislegum samfélögum. Dómsvaldið og stjórnmálin séu ómissandi hlutar þess kerfis sem ætlað er að tryggja að öllum borgurum sömu virðingu.

Róbert vísaði til þekktra orða fyrrverandi forseta Hæstaréttar Bretlands sem sagði að lýðræðið mæti alla jafnt þótt meirihlutinn gerði það ekki. Dómafordæmi Mannréttindadómstólsins hafi einnig byggt á því að þótt hagsmunir einstaklinga geti þurft að víkja fyrir hagsmunum hópa, megi ekki skilja lýðræðið þannig að meirihlutinn eigi alltaf að hafa allt sitt fram. Þótt lýðræðislegar leiðir til ákvarðanatöku kalli alltaf á málamiðlanir og viðleitni til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Án virkrar aðkomu minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga snúist slíkar leiðir hins vegar upp í andhverfu lýðræðis.

„Þetta er grundvöllur hins lýðræðislega þáttar í mannréttindalögum og mikilvægi raunverulega óháðra og sjálfstæðra dómstóla innan aðildarríkja sáttmálans liggur ekki síst í því að tryggja að allir séu viðurkenndir sem þátttakendur í samfélaginu og að réttindi þeirra séu tryggð.“

Með þessari skýringu á hlutverki dómara innan aðildarríkjanna vísaði Róbert til orða sinna í upphafi erindisins: „Allir dómarar eru Strassborgardómarar.“

Grundvallarreglur rekast á

Róbert vék að nokkrum merkum dómsmálum sem útkljáð hafa verið hjá dómstólnum á undanförnum árum í málum sem varða sjálfstæði dómstóla. Hann vísaði fyrst til mála einstaklinga sem kært hafa til dómstólsins yfirleitt á grundvelli meints vanhæfis dómara sem dæmdi mál þeirra í landsrétti.

Hins vegar hafi þróun dómaframkvæmdar MDE verið mjög hæg í málum tengdum þeirri kröfu að dómstólar séu skipaðir og settir á stofn með lögum. „Dómstóllinn er hins vegar með mál til meðferðar núna frá mínu heimalandi þar sem leysa þarf úr því í fyrsta skipti hvort 6. gr. Mannréttindasáttmálans taki til málsmeðferðar í aðdraganda þess að dómarar eru skipaðir,“ sagði Róbert. Þótt hann færi ekki nánar út í málavexti þar sem málið er enn til meðferðar hjá yfirdeild MDE, vék hann aðeins að þeim grundvallarreglum sem vegast á í málum sem þessu.

„Annars vegar erum við að fást við spurningar um þrígreiningu ríkisvaldsins og mikilvægi þess að sjálfstæði dómsvaldsins sé tryggt til að varðveita kerfið í heild sinni auk þess sem slíkt sjálfstæði er forsenda þess að dómstólar njóti trausts innan ríkja. Hins vegar geti niðurstaða um hvort dómstóll hafi verið skipaður á grundvelli laga einnig haft áhrif á önnur grundvallarsjónarmið. Nauðsyn fyrirsjáanleika og endanlegrar niðurstöðu dæmdra mála skipti máli og dómarar verði ekki settir af nema við mjög sérstakar og alvarlegar aðstæður. Ljóst er að þessar grundvallarreglur rekast á í málum af þessum toga.“

Róbert nefndi einnig að þótt flest mál sem rötuðu til MDE varði lagasetningu og framkvæmd laga með einum eða öðrum hætti væru einnig til dæmi um að háttsemi embættismanna og jafnvel stjórnmálamanna, þar á meðal yfirlýsingar um yfirstandandi málarekstur fyrir dómstólum landsins, hafi verið talin brot á 6. gr. sáttmálans vegna reglunnar um sjálfstæði dómsvaldsins.

Dómarar leita til MDE

Róbert varði einnig drjúgum hluta erindisins í umfjöllun um vaxandi fjölda mála sem berast frá dómurum sem kæra til dómstólsins á grundvelli 5. gr. sáttmálans um rétt til frelsis, 6. gr. um réttláta málsmeðferð og sjálfstæði dómsvaldsins, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og 10. gr. um tjáningarfrelsi. Þótt dómarar kæri mál sín sem einstaklingar hafi mál þeirra sérstöðu að því leyti að inn í þau fléttist sérstök sjónarmið um bæði þrígreiningu ríkisvalds og sjálfstæði dómsvaldsins.

Hér má hlýða á erindi Róberts auk svara hans við spurningum hlustenda sem bornar voru fram á Twitter meðan erindið var flutt.