Fyrrverandi dagskrárgerðarkona á Rás 1 spyr hvort eins mætti loka útvarpinu yfir sumarið eins og þegar sjónvarpinu var lokað í einn mánuð í gamla daga. Allir dagskrárliðir, utan frétta, dánarfregna og veðurs, síðasta laugardag, voru endurflutningur á gömlu efni frá hádegi og fram að miðnætti. Þrír nýir þættir voru þó sendir út fyrir hádegi þennan dag.

Lana Kolbrún Eddudóttir, sem áður stýrði þáttum á Rás 1, vekur athygli á þessu á Facebook.

„Fer að verða spurning um að loka stassjóninni bara í júlí, eins og sjónvarpinu í gamla daga,“ segir Lana Kolbrún.

Þegar leitað var til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra vísaði hann spurningum vegna þess til Þrastar Helgasonar dagskrárstjóra. Kvað Þröstur sumarfrí starfsmanna hafa haft áhrif. Aðspurður um lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins í þessum efnum kvað Þröstur málið ekki eiga erindi í fjölmiðla. „Nei, þú hefur ekkert eftir mér, ég er í sumarfríi og vil fá frið. Þetta er ekki fréttaefni.“

Þröstur sagði nær að Fréttablaðið fjallaði um „úrvalsþáttagerð“ hjá RÚV líkt og Leitina. Er það þáttaröð sem fjallar um leit að hinum heilaga kaleik kristinna manna uppi á Kili. Um þá leit hefur ítrekað verið fjallað í Fréttablaðinu frá árinu 2008. Þá lagði Þröstur til að haft yrði samband við menntamálaráðherra. Var á dagskrárstjóranum að skilja að RÚV þyrfti aukið fé.