Í heimavígstöðvum AMG-kraftabíladeildar Mercedes Benz hefur verið tekin sú ákvöðrun að vopna hvern einasta framleiðslubíl deildarinnar með rafmagnsmótorum, auk brunavéla þeirra, í því augnamiði að ná niður eyðslunni. Fyrstu AMG bílarnir með rafmagnsmótora koma á markað á næsta ári. Nú þegar eru nokkrir af AMG bílum Benz með 48 volta mild-hybrid aðstoð, þar á meðal CLS 53 og E53 og eykur það afl þeirra um 22 hestöfl. 

Það er síaukin krafa Evrópusambandsins um minni mengun bíla þeirra sem framleiddir eru í Evrópu sem fær Mercedes Benz til að taka skref eins og þessi. Á það reyndar við svo til alla bílaframleiðendur álfunnar. Margir af hefðbundnum bílum Mercedes Benz eru tengiltvinnbílar (Plug-In-Hybrid) með talsvert mikla aflaukningu frá rafmótorum og dæmi um þá eru C-Class, E-Class, og S-Class bílarnir og brátt GLC og GLE. 

Fram að lokum næsta árs mun Mercedes Benz kynna 20 ólíkar gerðir tengiltvinnbíla. Sá rafmótor sem Mercedes Benz styðst helst við í tengiltvinnbíla sína nú er 121 hestafl og tryggir í kringum 50 km akstur eingöngu á rafmagni. Mercedes Benz vinnur nú að því að lengja þann rafmagnsakstur uppí 100 km með stærri rafhlöðum. Í tilfelli AMG bíla Benz mun sú vegalengd líklega verða skemmri þar sem orka rafhlaðanna verður notuð hraðar til að auka afl bílanna. 

Mercedes Benz ætlar ekki að láta þessa síhertu kröfur Evrópusambandsins slá sig út af laginu varðandi framleiðslu AMG kraftabíla, heldur ætlar að nota nýjustu tækni til að uppfylla kröfurnar og gera þessa bíla bara ennþá meira spennandi. Mikilvægi AMG bíla Benz mun að þeirra sögn síst minnka og leika áfram lykilhlutverk í framleiðslu Mercedes Benz.