Allir al­mennir borgarar sem sátu fastir í Azovs­tal stál­verk­smiðjunni hafa yfirgefið hana. Sagt hefur verið að verksmiðjan sé síðasta vígi Maríu­pol. Að­gerðin hófst fyrir viku síðan, Sam­einuðu þjóðirnar og Rauði Krossinn hafa séð um hana, stofnanirnar tvær hafa þó ekki stað­fest fréttirnar.

Rússar hafa setið um verk­smiðjuna vikum saman og krafist upp­gjafar þeirra sem setið hafa þar inni, þar hafa bæði her­menn og al­mennir borgarar setið fastir.

Ekki er ljóst hvar brott­flutti al­menningurinn er stað­settur en Irya Vereshchuk, að­stoðar­for­sætis­ráð­herra Úkraínu, sagði að þessum hluta mann­úðar­að­gerðarinnar væri nú lokið. Það hefur tekið nokkra daga að koma fólki sem flúið hefur flúið verk­smiðjuna á land­svæði sem Úkraínu­menn stjórna.

Selenskíj sagði meira en þrjú hundruð al­mennir borgarar hafi verið fluttir frá verk­smiðjunni, en rúss­neska varnar­mála­ráðu­neytið sagði það einungis vera fimm­tíu og einn sem hafi verið fluttir á brott á þessu þriggja daga tíma­bili.

Nú þegar al­mennir borgarar eru lausir setur það nýja þrýsting á úkraínsk stjórn­völd að finna leið fyrir þá tvö þúsund her­menn sem sitja fastir á svæðinu og berjast um það sem síðasta land­svæði sem Úkraínu­menn stjórna í Maríu­pol. Þeir hafa heitið að gefast aldrei upp.

Fjöl­skyldur þeirra hafa sent frá sér ör­væntingar­fulla beiðni til leið­toga heimsins um að semja um að þeir verði látnir lausir á öruggan hátt.

Á sama tíma hafa Rússar til­kynnt fagnaðar­höld í Maríu­pol á svo­kölluðum sigur­degi sem fer fram 9. maí ár hvert, en sá dagur er haldinn há­tíð­legur til þess að minnast á sigur Sovét­ríkjanna í seinni heims­styrj­öldinni.