Gul veður­við­vörun er í gildi vegna norðan­hríðar á Ströndum, Norð­vestur­landi, Norð­austur­landi, Aust­fjöðrum og Austur­landi að Glettingi. Veður­stofan spáir norðan­kalda eða stinnings­kalda, 10 til 18 metrum á sekúndu með skaf­renningi og élja­gangi. Skyggni er mjög lítið á köflum og aksturs­skil­yrði erfið, einkum á fjall­vegum á svæðinu.

Á­fram­haldandi hættu­stig er á Siglu­firði vegna snjó­flóða­hættu og ó­vissu­stig á Norður­landi. Mörg snjó­flóð hafa fallið á svæðinu frá Siglu­firði að Dal­vík en ekki hefur frést af nýjum flóðum síðan á mið­viku­dag.

Í dag er norðan og norð­austan­áttin all­hvöss eða hvöss um allt land, 8 til 15 metrar á sekúndu síð­degis. Él og snjó­koma á köflum fyrir norðan og austan, en lengst af skýjað með köflum og þurrt annars staðar. Vægt frost, en sums staðar frost­laust við ströndina, einkum austan- og suð­austan til.

Heldur hvassari á morgun. Sam­felld snjó­koma norð­austan- og austan­lands, þurrt að kalla um landið sunnan­vert, en annars él.
Frost 1 til 6 stig.

Í hug­leiðingum veður­fræðings á Veður­stofu Ís­lands segir að veður­spárnar bjóði ekki upp á miklan breyti­leika þessa dagana en spáin verður á­líka næstu daga, þó gera spár ráð fyrir að úr­komu­bakki nálgist landið úr suðri á mánu­dag og þriðju­dag og gæti þá snjóað um tíma um landið sunnan­vert.