Gul veðurviðvörun er í gildi vegna norðanhríðar á Ströndum, Norðvesturlandi, Norðausturlandi, Austfjöðrum og Austurlandi að Glettingi. Veðurstofan spáir norðankalda eða stinningskalda, 10 til 18 metrum á sekúndu með skafrenningi og éljagangi. Skyggni er mjög lítið á köflum og akstursskilyrði erfið, einkum á fjallvegum á svæðinu.
Áframhaldandi hættustig er á Siglufirði vegna snjóflóðahættu og óvissustig á Norðurlandi. Mörg snjóflóð hafa fallið á svæðinu frá Siglufirði að Dalvík en ekki hefur frést af nýjum flóðum síðan á miðvikudag.
Í dag er norðan og norðaustanáttin allhvöss eða hvöss um allt land, 8 til 15 metrar á sekúndu síðdegis. Él og snjókoma á köflum fyrir norðan og austan, en lengst af skýjað með köflum og þurrt annars staðar. Vægt frost, en sums staðar frostlaust við ströndina, einkum austan- og suðaustan til.
Heldur hvassari á morgun. Samfelld snjókoma norðaustan- og austanlands, þurrt að kalla um landið sunnanvert, en annars él.
Frost 1 til 6 stig.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að veðurspárnar bjóði ekki upp á miklan breytileika þessa dagana en spáin verður álíka næstu daga, þó gera spár ráð fyrir að úrkomubakki nálgist landið úr suðri á mánudag og þriðjudag og gæti þá snjóað um tíma um landið sunnanvert.