Hafnað hefur verið í eitt skipti umsókn um flutning hergagna með íslenskum loftförum á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Alls hafa borist 69 umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum síðan vorið 2019 og bárust allar umsóknirnar frá Air Atlanta.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vopnaflutninga. Andrés spurði einnig um hvaða hergögn væri að ræða, framleiðanda og magn þeirra, en óheimilt er að veita þær upplýsingar samkvæmt svarinu.