Bjarni Snæbjörnsson hefur slegið í gegn í sýningunni Góðan daginn faggi sem sýnd hefur verið yfir fjörutíu sinnum í Þjóðleikhúsinu. Sýningin er sjálfsævisögulegur söngleikur sem byggður er á dagbókum og bréfum sem Bjarni skrifaði á unglingsárunum.

Bjarni segir eðlilegt að geta ekki sett sig í nákvæm spor annarra, mikilvægast sé að hlusta. „Við getum ekki skilið allt sem annað fólk upplifir. Það sem við þurfum að gera er að hlusta á okkur, fólkið sem er að lifa okkar hinsegin lífi. Við vitum alveg hvað þarf að gera til að gera samfélagið að betri stað fyrir okkur öll.“

„Ég þekkti engan sem var hinsegin og hafði engar slíkar fyrirmyndir í mínum uppvexti. Í öllu sjónvarpsefni, bókum og leikritum voru allir gagnkynhneigðir. Ég horfði á Staupastein, Baywatch, Cosby Show og fleiri og það eina sem blasti við mér voru gagnkynhneigt fólk sem lifði mjög hefðbundnu heteronormatívu lífi,“ segir Bjarni.

„Fyrir utan þetta var allt annað í kringum mig, öll mín fjölskylda og allt samfélagið fyrir vestan gagnkynhneigt og ekki gert ráð fyrir neinum öðrum möguleikum en að ég yrði skotinn í stelpum og myndi síðan eignast konu, eins og það væri eina leiðin til að vera gildur samfélagsþegn,“ segir Bjarni.

„Svo var rækilega ætlast til þess að strákar og karlmenn væru á ákveðinn hátt, með ákveðin áhugamál og hæfileika og alls ekki á nokkurn hátt kvenlegir. Svo hægt og róleg innprentast í mig sú hugmynd að ég væri einhverskonar villa, og svo umbreytist það í djúpt sjálfshatur. Mér fannst ég aldrei tilheyra samfélaginu mínu. Og um þetta fjallar sýningin okkar, uppgjör mitt við þennan hluta af mér.” bætir hann við.