Mikið álag hefur verið á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri í sumar. Á­stæðurnar eru af ýmsum toga en kalla hefur þurft starfs­menn inn úr sumar­leyfum vegna mann­eklu. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Hildi­gunni Svavars­dóttur, for­stjóra Sjúkra­hússins á Akur­eyri.

„Eins og fram hefur komið í fréttum hefur út­breiðsla Co­vid-19 verið vaxandi hér á landi með þeim af­leiðingum að álag á bæði bráða­mót­töku og legu­deildir hefur aukist og inn­lögnum sjúk­linga fjölgað,“ segir Hildi­gunnur.

Hún segir ofan á þetta bætast álag vegna fjölda ferða­manna og ýmissa annarra sjúk­dóma sem krefjast ein­angrunar sjúk­linga.

Sjúkra­húsið hefur dregið úr val­kvæðri þjónustu vegna þess að allar legu­deildir eru yfir­fullar.

„Mann­eklan er okkar aðal­vandi um þessar mundir en undan­farin tvö ár hafa reynst erfið innan heil­brigðis­kerfisins og undir­mönnun stað­reynd hjá nokkrum fag­stéttum og förum við ekki var­hluta af því,“ segir Hildi­gunnur.

Ofan í þetta blandaðist að ekki tókst að manna allar stöður sumar­af­leysinga og tölu­vert hefur verið um veikindi starfs­manna. Á­lagið hefur verið sér­stak­lega mikið á starfs­fólks sjúkra­hússins vegna þess.

Því hefur verið gripið til þeirra ráða að kalla starfs­fólk úr sumar­leyfum. „En það er að­gerð sem við viljum helst forðast þar sem afar mikil­vægt er að starfs­menn fari í sumar­leyfi og fái tæki­færi til þess að hvíla sig og hlaða batteríin,“ segir Hildi­gunnur.

Hildi­gunnur segir Willum Þór Þórs­son, heil­brigðis­ráð­herra, vera með­vitaðan um stöðuna og að hann deili á­hyggjum af á­standinu. Hún segir fram­kvæmda­stjórn á­fram leita leiða við að leið­rétta stöðuna.

„Öll vitum við hve mikil­vægt er að hlúa að starfs­fólkinu svo það njóti sín í starfi og standi undir þeim kröfum sem ætlast er til af þeim,“ segir hún.