Neytendasamtökin hafna þeim útskýringum Íslandsbanka að bankinn geti ekkert gert til að liðsinna viðskiptavinum sem lenda í klóm smálánafyrirtækja. Framkvæmdastjóri samtakanna segir skýr lagaákvæði kveða á um endurgreiðslurétt neytenda.

Í Fréttablaðinu í síðustu viku var fjallað um mál einstæðrar móður sem hafði lent í því á útborgunardegi að launareikningur hennar var tæmdur með tíu skuldfærslum frá smálánafyrirtækinu Núnú lán ehf. Samtals voru skuldfærðar tæplega 290 þúsund krónur, sem allar voru 28.800 krónur eða rúmlega það.

Konan hafði tekið lán hjá Núnú fyrir einu og hálfu ári, að því er fram kom í nafnlausri færslu hennar í Facebook-hóp. Þar birtist jafnframt skjáskot úr appi Íslandsbanka af þessum færslum á reikningnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka í síðustu viku segist bankinn ekkert geta gert í þeim tilfellum er neytendur heimila sjálfir skuldfærslu af greiðslukortum sínum.

Í lögum um greiðsluþjónustu númer 114/2021 segir í 82. grein:

„82. gr. Endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um.

Greiðandi á rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda sínum vegna heimilaðrar greiðslu sem viðtakandi hefur sett af stað eða haft milligöngu um ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

    1. fjárhæð greiðslunnar var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt,
    2. fjárhæð greiðslunnar var hærri en svo að hægt væri að gera ráð fyrir að greiðandi réði við þá fjárhæð miðað við útgjaldamynstur hans fram að því, skilmála í rammasamningi og málsatvik að öðru leyti.“
Íslandsbanki telur neytendur sjálfa hafa gefið heimild til skuldfærslu og því geti bankinn ekkert gert þeim til hjálpar þótt smálánafyrirtæki tæmi reikninga þeirra.
Fréttablaðið/Ernir

Þegar Fréttablaðið spurðist fyrir um hvort þessi lagagrein þýddi ekki einmitt að bankinn hefði úrræði til að aðstoða viðskiptavini sem lenda í svona málum barst eftirfarandi svar:

„Bankinn reynir ávallt að aðstoða viðskiptavini sína hafi hann heimildir til þess. Ekki er hægt að slá því föstu hver ber ábyrgð í málum líkum þeim sem þú nefnir. Skoða þarf hvert og eitt tilvik fyrir sig en rétt er að benda á að bankinn tjáir sig aldrei um mál einstakra viðskiptavina.

Varðandi tilvísun þína í ákvæði 82. gr. laga um greiðsluþjónustu nr. 114/2021 þá er það þannig að reikningar viðskiptavina eru aldrei skuldfærðir nema með vitund og samþykki viðskiptavinarins. Þó krafa sé stofnuð á kennitölu viðskiptavinar þá leiðir það ekki til þess að jafnframt stofnist heimild til að skuldfæra reikning viðskiptavinar.

Viðskiptavinur getur hins vegar hvenær sem er afhent kortanúmer debetkorts sem staðfestingu á að skuldfæra eigi viðkomandi greiðslukort fyrir einstakri greiðslu eða röð greiðslna vegna greiðslu á vöru eða þjónustu. Það er viðskiptavinurinn sjálfur sem gefur upp debetkortanúmer sitt til staðfestingar á að það sé sú greiðsluleið sem hann óskar eftir.“

Fréttablaðið bar svar bankans undir Brynhildi Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna. Hún segir samtökin telja mjög óeðlilegt og andstætt lögum að skuldfæra lán eftir að það hafi farið í gegnum allt innheimtuferlið. „Ef heimild er til staðar ætti að skuldfæra lánið á eindaga, ekki síðar. Viðskiptamódel smálánafyrirtækja virðist hins vegar ganga út á að innheimta háan innheimtukostnað þannig að það virðist lítill hvati til að skuldfæra lán áður en innheimtuferlið er sett af stað. Þar af leiðandi teljum við eðlilegt að bankarnir taki við kröfum lántakenda um endurgreiðslu. Allan vafa um um það hvort skuldfærsluheimildin nái einnig yfir innheimtukostnað verður auk þess að túlka neytanda í hag,“ segir Brynhildur.