Frá því að Kvenna­athvarfið var stofnað fyrir 40 árum, þann 2. júní 1982, hefur tilgangur samtakanna verið sagður að aðstoða konur og börn þeirra sem búa við ofbeldi. Á aðalfundi Samtaka um kvennaathvarf, sem haldinn var á þriðjudaginn, var ákveðið að breyta lögum samtakanna og tala um tilgang þeirra sem aðstoð við konur, kynsegin fólk og börn þeirra.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvenna­athvarfsins, segir breyttan tíðaranda hafa verið hvatann að breytingunni. „Þetta er sem sagt svar við spurningunni hvort Kvenna­athvarfið sé bara fyrir konur og börn þeirra eða alla nema karla,“ segir Sigþrúður.

„Þegar athvarfið var stofnað var þetta ekki eitthvað sem fólk velti fyrir sér en í nútímasamfélagi er það gert,“ bætir hún við.

Sigþrúður hefur starfað hjá Kvennaathvarfinu í að verða sextán ár. Hún segir að allan þann tíma hafi hún fundið fyrir mikilli velvild í garð athvarfsins, með árunum og í heimsfaraldrinum hafi velvildin aukist enn frekar.

„Kvennaathvarfið hefur alltaf átt stað í hjarta fólks og allir hafa verið boðnir og búnir til að gera hina ýmsu hluti fyrir athvarfið,“ segir Sigþrúður. „Þetta reis hæst í heimsfaraldrinum og ég held að það tengist því svolítið að það voru tvær konur myrtar á heimilum sínum rétt í byrjun faraldursins,“ bætir hún við.

„Það var alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað fólk var tilbúið að gera til þess að vekja athygli á málstaðnum og safna fé fyrir athvarfið,“ segir Sigþrúður.

Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki leggja athvarfinu lið með ýmsum leiðum og fjárframlögum. Sigþrúður segir að þegar upp komi sú staða að athvarfið skorti eitthvað bregði þau oftar en ekki á það ráð að auglýsa eftir aðstoð á Facebook.

„Við köllum það sníkjudeildina,“ segir hún og hlær. Ekki fyrir löngu kom upp hugmynd í athvarfinu að bjóða konunum sem þar dvelja upp á sundnámskeið. „Það var hugsað sem valdefling fyrir þær. Við hér á Íslandi erum svo vön því að allir kunni að synda og sundferðir og sundlaugar eru stór partur af okkar samfélagi,“ útskýrir Sigþrúður og bendir á að fjöldi kvenna í athvarfinu hafi jafnvel aldrei farið í sund.

„Við auglýstum á Facebook og úr varð að hópur nemenda í Háskólanum í Reykjavík tók að sér sundnámskeið fyrir konurnar,“ segir Sigþrúður.

Um er að ræða nemendur í sund­áfanga innan Íþróttafræðideildar HR, sem hafa undir handleiðslu Inga Þórs Einarssonar lektors kennt konunum að synda. „Ég bauð nemendum mínum að skipta út einu skilaverkefni fyrir þetta verkefni og þau voru heldur betur til í það,“ segir Ingi.

Nemendurnir voru vel undirbúnir til að kenna konunum sund frá grunni og gekk námskeiðið vel. Áfanginn kláraðist fyrir páska en nemendurnir ákváðu þó að halda áfram að kenna konunum sund. „Þetta var það sem við köllum win-win. Nemendurnir lærðu mikið á þessu verkefni og konurnar eru orðnar sundfærar og geta farið með börnin sín í sund,“ segir Ingi.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvenna­athvarfsins
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari