Alþjóðadómstóllinn í Haag í Hollandi hefur fyrirskipað Mjanmar að grípa þegar í stað til allra nauðsynlegra ráðstafana til að stöðva þjóðarmorð og illa meðferð á Róhingja múslimum sem eru í minnihluta í landinu.

Stjórnvöld í Gambíu sækja dómsmál gegn Mjanmar vegna þjóðarmorðs á Róhingjum fyrir hönd samtaka múslimaríkja.

Herinn í Mjanmar, sem lét til skarar skríða gegn Róhingjum í Rakhine-héraði haustið 2016, hefur verið sakaður um fjöldamorð, skipulagðar nauðganir og önnur ofbeldisverk. Talið er að herinn hafi drepið þúsundir Róhingja-karla, kvenna og barna, og neytt um 730.000 þeirra úr landi. Flestir Róhingjanna flúðu til Bangladess og dvelja nú þar í flóttamannabúðum.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar og handhafi friðarverðlauna Nóbels, mætti fyrir Alþjóðadómstólinn í desember síðastliðnum til að svara fyrir alvarlegar ásakanir um þjóðarmorð. Þar hélt hún uppi vörnum fyrir herinn og sagði ásakanir Gambíumanna bæði rangar og í skötulíki.

Eftir að dómstóllinn birti kröfur sínar í gær hefur Suu Kyi, viðurkennt að stríðsglæpir kynnu að hafa verið framdir gegn Róhingjum í ættlandi hennar, en vísar enn á bug ásökunum um þjóðarmorð.

Dómstóllinn krefst þess að mjanmörsk yfirvöld skili skýrslu um stöðu og þróun mála eftir fjóra mánuði og síðan á hálfs árs fresti. Koma verði í veg fyrir dráp á Róhingjum og allt ofbeldi í garð þeirra.

Krafa Alþjóðadómstólsins er bindandi og ekki hægt að áfrýja ákvörðuninni. Hins vegar mun dómurinn engar leiðir hafa til eftirfylgni. Málið er rétt að byrja. Búist er við að það verði til umfjöllunar dómstólsins í nokkur ár áður en endanleg dómsniðurstaða er fengin.