Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvernig túlka beri ákvæði vinnutímatilskipunar ESB um skilgreiningu á vinnutíma. Úrskurður þess efnis féll í Landsrétti í lok síðustu viku en þar var snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá mars síðastliðnum.

Snýst um ferðir í og úr vinnu

Flugvirki sem starfar hjá Samgöngustofu höfðaði málið og vildi með því fá úr því skorið hvort sá tími sem fer í ferðalög á vegum vinnuveitanda á starfsstöð sem ekki teljist reglubundin og falli utan dagvinnutíma teljist til vinnutíma. Í úrskurði Landsréttar segir að það komi ekki skýrt fram í íslenskum lögum.

Í málinu voru tilteknar tvær ferðir flugvirkjans, annars vegar til Ísraels og hins vegar til Sádi-Arabíu. Ferðatíminn í seinna tilvikinu náði frá klukkan 4.15 að morgni til klukkan 2.40 tæpum sólarhring síðar en aðeins tíminn frá klukkan 8 til 16 taldist til vinnutíma. Um er að ræða prófmál sem er rekið fyrir hönd hóps flugvirkja sem starfa hjá Samgöngustofu.

Stefnandi telur að ferðatími sem falli utan hefðbundins dagvinnutíma eigi að teljast sem vinnutími sem beri að greiða fyrir. Hvorki í ESB-tilskipuninni né íslenskum lögum sé hugtakið ferðatími notað. Þar séu aðeins notuð hugtökin vinnutími og hvíldartími.

Vinnutími er skilgreindur í lögum sem „sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur“ en hvíldartími telst „sá tími sem ekki telst til vinnutíma“.

Jón Sigurðsson hæstaréttarlögmaður flytur mál flugvirkjans. Hann segir nauðsynlegt að fá leyst úr túlkun á vinnutímatilskipuninni áður en komi til efnislegrar meðferðar á málinu. Tilskipunin var leidd í íslensk lög árið 2003.

Úrslit málsins verði fordæmisgefandi

„Úrlausn á þessu máli mun væntanlega hafa fordæmisgildi fyrir aðra ríkisstarfsmenn. Ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins er ætlað að skýra það ákvæði tilskipunar sem á reynir og stuðla að samræmdri framkvæmd á EES-svæðinu. Álitið verður síðan innlegg í dómsmálið hér á Íslandi,“ segir Jón.

Í nóvember 2017 gaf EFTA-dómstóllinn Hæstarétti Noregs ráðgefandi álit á túlkun sama ákvæðis vinnutímatilskipunarinnar. Þar segir að nauðsynlegur ferðatími starfsmanns til eða frá starfsstöð sem sé ekki reglubundin skuli teljast til vinnutíma.

„Það er fordæmi sem við höfum verið að horfa til. Þar var deilt um það hvort tilteknar ferðir lögreglumanns í sérverkefni út á land skyldu teljast til vinnutíma. Hann var á vegum vinnuveitanda og var ekki að fara til eða frá sinni reglubundnu starfsstöð.“

Hvíldartími eða vinnutími

Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins er annaðhvort um vinnutíma að ræða eða hvíldartíma. „Þetta var sannarlega ekki hvíldartími og þess vegna getur þetta bara talist vinnutími. Flugvirkjarnir telja sig í sambærilegri stöðu.“

Ríkið viðurkennir hins vegar ekki sambærileikann við norska málið þar sem þar hafi verið um ferðir að ræða innanlands og vinnutíminn ekki virkur.