Tímamót eru að verða í kjötframleiðslu á Íslandi, en vinnsla á alifuglakjöti er nú orðin jafn mikil og kindakjötsframleiðsla. Framleiðsla alifuglakjöts jókst um meira en tíu prósent á milli tveggja síðustu ára, að því er nýjar tölur Hagstofunnar sýna.
Himinn og haf var á milli þessara kjötafurða á seinni hluta síðustu aldar, eins og meðfylgjandi graf sýnir, en frá aldamótum hefur vinnsla alifuglakjöts stóraukist, farið úr liðlega þrjú þúsund tonnum á ári í vel ríflega níu þúsund tonn, eða þrefaldast með öðrum orðum.
Á sama tíma hefur kindakjötsframleiðsla staðið í stað, að mestu leyti, en heldur gefið eftir á síðustu fimm árum. Hún er núna fimm þúsund tonnum minni en hún var á seinni hluta síðustu aldar, hefur dregist saman jafn mikið og vinnslan á alifuglakjöti hefur aukist á þessari öld.
Vinnsla á svínakjöti hefur stóraukist á síðustu fjörutíu árum, farið úr rösklega þúsund tonnum um 1980 í vel ríflega sex þúsund tonn og framboð á nautakjöti nemur núna tæplega fimm þúsund tonnum í samanburði við tæplega þrjú þúsund tonn fyrir fjórum áratugum.
Vinnsla hrossakjöts hefur verið sú sama allan þennan tíma, í kringum þúsund tonn á ári.
